145. löggjafarþing — 151. fundur,  13. sept. 2016.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

853. mál
[17:02]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þýðir það þá ekki að við þurfum aðeins breytt kerfi, aðeins breytta verkferla til þess að nálgast þessar ákvarðanir? Ég er algjörlega sammála hv. þingmanni, ég mun aldrei greiða atkvæði með því að virkja Urriðafoss, mér finnst það galið. Mér finnst það algjörlega úti á túni að ætla að virkja þarna. Eins og ég fór yfir, í andsvörum við annan hv. þingmann, þá er það ekki af faglegum ástæðum — ég bara sé fossinn og ég hugsa með mér: Ætla menn að virkja þetta? Eru þeir brjálaðir? Það er í raun það eina sem ég hef til að rökstyðja það í sjálfu sér, enda þarna um fagurfræðilegt fyrirbrigði að ræða og vissulega pólitíska afstöðu þegar allt kemur til alls.

En þá velti ég fyrir mér: Hér eru allnokkrir kostir sem fara í verndarflokk sem ég verð reyndar að viðurkenna að ég hef ekki kynnt mér enn þá en þarna eru í orkunýtingarflokki hlutir sem maður kannast við frá umræðunni af þessu kjörtímabili, svo sem Holtavirkjun, Urriðafossvirkjun og Hvammsvirkjun og Skrokkalda. En eftir stendur að ég er sammála hv. þingmanni. Þetta er alltaf pólitísk togstreita. Við þurfum einhvern veginn að geta útkljáð það þegar við erum hreinlega ósammála um það hvað okkur finnst „galið“ að virkja og hvað er ekki svo „galið“ að virkja, svo sem Urriðafoss. En ég sé hvergi ferli fyrir það sjónarmið sem ég veit að ég deili með hv. þingmanni gagnvart Urriðafossvirkjun. Ég sé ekki skýrt, alla vega ekki á þessum tímapunkti, ferli í þessu mengi öllu saman, rammaáætlun svokallaðri, sem tekur tillit til þessarar togstreitu og býr til færi á því að útkljá hana á þeim grunni sem ég var að lýsa, nefnilega fagurfræðilegum. Þetta er alltaf faglegt mat. Þetta er alltaf spurning um nokkuð sem hægt er að rannsaka og setja í box, eitthvert ferli, sem þarf að vera ef það á að vera faglegt. En eftir stendur spurningin: Mun þetta í raun duga til þess að útkljá þessar pólitísku spurningar ef ekki í gegnum ferli þar sem Alþingi breytir tillögum?