138. löggjafarþing — 151. fundur,  6. sept. 2010.

Stjórnarráð Íslands.

658. mál
[15:31]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta allshn. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. utanríkisráðherra fyrir að koma hér í andsvar við mig. Ég er alltaf jafnundrandi á því hvað hæstv. utanríkisráðherra er vel inni í stefnumálum Framsóknarflokksins, en það er vel að hann kynni sér stefnu annarra flokka. Ég fagna því, því að ráðherra á hverjum tíma þarf náttúrlega að vera vel inni í öllum málum.

Ég hef persónulega ekki áhyggjur af því hvernig flokkurinn mælist í skoðanakönnunum, en það má annað segja um flokk hæstv. utanríkisráðherra, því meðlimir hans láta gjarnan sveiflast og taka ákvarðanir eftir því hvernig skoðanakannanir blása. Því miður er ég ekki haldin því heilkenni þótt hæstv. utanríkisráðherra hafi áhyggjur af því.

Varðandi það að starfsmenn hafi verið ráðnir án auglýsinga inn í forsætisráðuneytið, á lagaskrifstofu forsætisráðuneytisins, þá vil ég benda hæstv. utanríkisráðherra á að allsherjarnefnd barst hvorki meira né minna en umsögn frá sjálfu forsætisráðuneytinu um frumvarp um lagaskrifstofu Alþingis sem ég lagði fram ásamt flestum þingmönnum Framsóknarflokksins og Hreyfingarinnar. Þvílíkur skjálfti hlýtur að hafa farið um hæstv. forsætisráðherra og ráðuneytið allt að þau sáu sig knúin til að senda umsögn við frumvarpið. Í þeirri umsögn stendur að þrír starfsmenn séu þarna og hafi verið ráðnir án auglýsingar. Það var ekki kynnt neitt þegar þessi lagaskrifstofa var sett upp hér í sumar, því allt í einu lá það fyrir allsherjarnefnd að búið væri að stofna hana. Vitiði út af hverju? Vegna þess að í skýrslunni sem dreift var í maí 2010 kom fram að bæta þyrfti lagasetningu á Alþingi. Þá fór hæstv. forsætisráðherra þá leið að taka bara stofnunina til sín. Ég hvet Alþingi til að ná þessari stofnun til sín til að hægt sé að vanda lagasetningu hér.