138. löggjafarþing — 151. fundur,  6. sept. 2010.

Stjórnarráð Íslands.

658. mál
[15:36]
Horfa

Frsm. meiri hluta allshn. (Róbert Marshall) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég er með nokkrar spurningar til hv. þingmanns vegna þess nefndarálits sem hún kynnti hér áðan. Ég vil taka það fram að það er ánægjulegt að heyra hversu mikil ánægja er hjá hv. þingmönnum Framsóknarflokksins með ráðherra ríkisstjórnarinnar eftir að þeir hafa lokið störfum.

Mig langar til þess að spyrja, vegna þess að ég sakna þess úr nefndarálitinu: Hvaða efnislegu tillögur hefur hv. þingmaður fram að færa í þessum efnum? Hvaða ráðuneyti á að sameina? Hversu mörgum starfsmönnum telur hv. þingmaður eðlilegt að segja upp við þær sameiningar? Hversu miklum sparnaði mundi hv. þingmaður vilja ná fram?

Það er rétt hjá hv. þingmanni, ég tek undir það sjónarmið, það er betra fyrir starfsfólk Stjórnarráðsins að gengið sé fram hratt og örugglega í þessum efnum. En hvaða efnislegu tillögur hefur þingmaðurinn fram að færa í málinu?

Er það rétt skilið hjá mér að hv. þingmaður hafi skipt um skoðun þegar kemur að afgreiðslu þessa máls frá því sem var innan hv. allsherjarnefndar, vegna þess að þar lagði hv. þingmaður, ef ég man rétt, til að málið færi ekki til meðferðar í þinginu heldur yrði afgreitt einhliða af hálfu ríkisstjórnarinnar.