138. löggjafarþing — 151. fundur,  6. sept. 2010.

Stjórnarráð Íslands.

658. mál
[16:28]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Virðulegi forseti. Það rann upp fyrir mér þegar ég fylgdist með umræðunum um frumvarp til laga um breytingu á lögum um Stjórnarráð Íslands að septemberþingið sem við sitjum núna er að mörgu leyti dálítið skemmtilegt, a.m.k. fyrir okkur sem sitjum í stjórnarandstöðuflokkunum. Það er skemmtilegt vegna þess að á þessu septemberþingi vakna ýmsir gamlir draugar til lífsins. Hæstv. utanríkisráðherra talaði um draugasögur áðan og frumvarpið er einmitt gamall draugur ríkisstjórnarinnar. Hér ræðum við nefnilega líklega helsta vandræðamál ríkisstjórnarinnar sem komið hefur inn fyrir þröskulda og dyr þingsins.

Menn hafa eytt litlu púðri í að rifja upp hvernig ástandið í þinghúsinu og í ríkisstjórninni var þegar frumvarpið var lagt fram og til stóð að sameina ráðuneyti. Því var haldið fram að það væri allt saman gert í sparnaðarskyni og vinnan hefði verið fagleg, eins og gjarnan er sagt. En eftir að frumvarpið kom fram og tíminn leið rann það upp fyrir mönnum að frumvarpið var í rauninni ekkert annað en uppsagnarbréf hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, Jóns Bjarnasonar. Í upphafi hafði frumvarpið nefnilega þann tilgang hjá hæstv. ríkisstjórn og leiðtogum hennar að losna við þann óþægilega ráðherra út úr ríkisstjórninni en hann hafði með skeleggri framgöngu sinni verið í andstöðu við eigin ríkisstjórn í lykilmálum, svo sem í Evrópumálum. Það skalf allt og nötraði á Alþingi dagana og vikurnar áður en þingið fór í sumarfrí. Ég veit að hæstv. ríkisstjórn var því fegnust þegar sumarfríið loksins skall á vegna þess að í kjölfarið hélt hún og leiðtogar hennar að ágreiningurinn yrði ekki eins áberandi og hann hafði verið, en annað kom í ljós.

Meðganga málsins fyrir hæstv. ríkisstjórn hefur verið ákaflega erfið og frumvarpið verið eins og steinbarn í maganum á henni. Nú liggur fyrir að frumvarpinu verður breytt í grundvallaratriðum frá því sem lagt var upp með. Hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra heldur velli og gerðar hafa verið breytingar á ríkisstjórninni, umtalsverðar breytingar, sem reyndar eru kynntar þannig að þær séu einungis gerðar um stundarsakir. Það er búið að skipta faglegu ráðherrunum út úr ríkisstjórninni, hæstv. fyrrverandi efnahags- og viðskiptaráðherra Gylfa Magnússyni og hæstv. fyrrverandi dómsmála- og mannréttindaráðherra Rögnu Árnadóttur, hv. þm. Kristjáni Möller og Álfheiði Ingadóttur. Inn í stjórnina hafa komið Guðbjartur Hannesson, hæstv. velferðarráðherra, sérlegur talsmaður ríkisstjórnarinnar í Icesave-málinu og fékk þar dúsu fyrir framgöngu sína í því fyrir hönd ríkisstjórnarinnar, og síðan fyrirliði órólegu deildarinnar, Ögmundur Jónasson, hæstv. dómsmálaráðherra, sem gegnir reyndar núna fleiri ráðherraembættum.

Þarna birtist í rauninni síðasta tilraun leiðtoga ríkisstjórnarinnar til að berja í bresti ríkisstjórnarsamstarfsins og bjarga því sem eftir er af því. Órólega deildin var tekin inn í ríkisstjórnina til að reyna að halda hópnum saman. Ég á eftir að sjá að slíkar lýtaaðgerðir eða andlitslyftingar muni hafa tilætluð áhrif enda finnur maður að gríðarleg óánægja er innan stjórnarflokkanna með breytingarnar, ekki síst innan Samfylkingarinnar. Við höfum orðið vitni að því síðustu daga að hæstv. ráðherra Ögmundur Jónasson situr í ríkisstjórn í óþökk þingmanna Samfylkingarinnar eins og yfirlýsingar hv. þm. Sigríðar Ingibjargar Ingadóttur bera skýrt merki. Hann skipar sér þar á bekk með hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra Jóni Bjarnasyni. Og það er ólga innan Samfylkingarinnar með að fyrrverandi hæstv. ráðherra Kristján Möller sé kominn út úr ríkisstjórn vegna þess að þar fór síðasti kratinn í Samfylkingunni úr stjórninni (Gripið fram í.) og valdataka Alþýðubandalagsins tók á sig mynd. Nú sitjum við uppi með ríkisstjórn Alþýðubandalagsins sem samanstendur af alþýðubandalagsmönnum sem sitja í þingflokkum Samfylkingar og Vinstri grænna, eins og hæstv. utanríkisráðherra, svo ég tali nú ekki um hæstv. forseta sem nú situr í forsetastóli. (Gripið fram í.)

Allt er þetta gert til að reyna að berja ríkisstjórnina saman og afla henni aukinna vinsælda. Ég hef reyndar tekið eftir því að ríkisstjórnin er að gera fleira til að afla sér vinsælda innan þings. Ég hef tekið eftir því, og það hefur ekki farið hátt í fjölmiðlum, að innan ríkisstjórnarinnar hefur maður gengið undir manns hönd síðustu daga til þess að tryggja afgreiðslu fjölmargra mála Framsóknarflokksins í þinginu, síðast tveggja hygg ég í dag. Það skyldi nú ekki vera til að reyna að kaupa frið fyrir ríkisstjórnina frá Framsóknarflokknum? Ég velti því fyrir mér hvort ríkisstjórnin hyggst beita sér í því að þingmál þingmanna annarra stjórnmálaflokka fái sambærilega meðferð í þinginu og þingmál Framsóknarflokksins hafa fengið á síðustu dögum. (Gripið fram í.) Ég minni á að ýmis mál bíða afgreiðslu sem telja má sjálfsagt að hljóti hana. Enginn sem hefur ekki eitthvað að fela ætti að vera á móti því. Ég nefni mál sem ég sjálfur lagði fram um að Icesave-málið verði rannsakað sérstaklega. Ég geri ráð fyrir að hæstv. forsætisráðherra muni beita sér fyrir því að það verði tekið til umfjöllunar og afgreiðslu á þinginu vegna þess að ég fæ ekki séð að nokkur maður ætti að vera á móti því að embættisfærslur íslenskra ráðherra í Icesave-málinu hljóti þá rannsókn sem þær gefa tilefni til. (Gripið fram í.)

Ég vil síðan taka það fram vegna þess sem við ræðum hér að ég er síður en svo á móti fækkun ráðuneyta, sparnaði og ráðdeild í ríkisrekstri. En það verður að vera eitthvert vit í breytingunum sem ráðist er í. Þær verða að skila sparnaði og tilætluðum árangri, það þarf að vinna breytingarnar vel og undirbúningurinn verður að vera þannig að þær gangi upp. Það verður að haga vinnunni þannig að sem flestir eða allir stjórnmálaflokkar komi að endurskoðuninni og að þjóðfélagshópar og starfsstéttir sem hlut eiga að máli fái að segja sína skoðun.

Gallinn við þetta mál — fyrir utan að það fór auðvitað langt með að kljúfa hæstv. ríkisstjórn í herðar niður — er sá að undirbúningur þess er fyrir neðan allar hellur. Ég heyrði að hæstv. forsætisráðherra nefndi í andsvari fyrr í dag að það væri oft þannig, og hún þekkir það af eigin reynslu, að stjórnarandstöðuþingmenn gagnrýndu undirbúning mála. Ég veit að hæstv. utanríkisráðherra kannast við það úr sínu fyrra pólitíska lífi sem stjórnarandstöðuþingmaður að þegar hann hafði ekkert efnislegt til málanna að leggja setti hann á langar ræður um það hversu undirbúningur málanna hefði verið slakur. (Gripið fram í.) Nú er það hins vegar svo að það eru ekki fyrst og fremst þingmenn stjórnarandstöðunnar sem gagnrýna undirbúning. Við 1. umr. þessa máls var lesin upp bókun þar sem undirbúningnum og vinnubrögðunum var mótmælt. Undir þessa bókun skrifuðu hv. þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs Atli Gíslason og Ásmundur Einar Daðason og sjálfur Jón Bjarnason, hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Nú er það ekki bara stjórnarandstaðan sem gagnrýnir undirbúning og meðferð ríkisstjórnarinnar á frumvörpum í þinginu heldur stjórnarþingmenn og jafnvel ráðherrar í ríkisstjórn sem bera ábyrgð á og leggja fram viðkomandi frumvörp.

Í bókuninni var því haldið fram að frumvarpið stæðist ekki þær grundvallarkröfur sem gerðar eru í þeirri ágætu bók, Handbók um undirbúning og frágang lagafrumvarpa, sem gefin var út af forsætisráðuneytinu, dóms- og kirkjumálaráðuneytinu og skrifstofu Alþingis. Hv. þm. Atli Gíslason vísaði til þess, þegar hann las upp yfirlýsingu frá þeim þremur hv. þingmönnum og hæstv. ráðherra sem ég nefndi áðan, að frumvarpið uppfyllti ekki þær kröfur sem gerðar eru í Handbók um undirbúning og frágang lagafrumvarpa.

Þar segir í formála, með leyfi forseta:

„Þótt Alþingi eigi lokaorðið um lagasetningu er það staðreynd að stór hluti samþykktra laga á rætur í stjórnarfrumvörpum. Það hvílir því mikil ábyrgð á ráðuneytunum að búa frumvörp sem best úr garði og skapa forsendur fyrir því að löggjöfin verði sem vönduðust.“

Samkvæmt yfirlýsingu þessara þriggja stjórnarþingmanna og eins ráðherra gerir frumvarpið það ekki.

Ég hjó eftir því að hv. þm. Róbert Marshall, formaður hv. allsherjarnefndar, kannaðist ekki við að bókun þremenninganna úr þingflokki Vinstri grænna hefði svo mikið sem verið rædd á fundum allsherjarnefndar. Ég spyr: Hvers konar lítilsvirðing er það við þingið og þá þingmenn og hæstv. ráðherra sem stóðu að bókuninni að hv. allsherjarnefnd ræði ekki efnislega athugasemdirnar sem þar komu fram? Þetta er auðvitað lítilsvirðing við þessa tilteknu þingmenn og við þingið.

Mér fannst hæstv. forsætisráðherra bíta höfuðið af skömminni í andsvari þegar hún lýsti því að undirbúningur málsins hefði verið til fyrirmyndar. Hún notaði orðin „til fyrirmyndar“ þrátt fyrir að ráðherra í hennar eigin ríkisstjórn hafi með bókun mótmælt vinnubrögðunum.

Hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson benti á að frumvarpið sem varðar sameiningu félagsmálaráðuneytis og heilbrigðisráðuneytis hefði ekki einu sinni verið sent heilbrigðisstéttunum eða þeim stéttum sem heyra undir félagsmálaráðuneytið til umsagnar. Hæstv. forsætisráðherra lætur eins og það fólk sé ekki til, fólk sem er að reyna að byggja upp heilbrigðiskerfið, hefur sérþekkingu, menntun og metnað fyrir hönd þess, það fær ekki einu sinni að segja álit sitt á frumvarpinu og látið er eins og það sé ekki til. Hæstv. forsætisráðherra talar ekkert við fólkið í landinu og af hverju skyldi það vera? Það er vegna þess að hún sást auðvitað ekki fyrir í viðleitni sinni þegar hún samdi frumvarpið og lagði það fram til að reyna að losna við Jón Bjarnason, hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, úr ríkisstjórninni. Öllu öðru, faglegu vinnubrögðunum, samtalinu, samráðinu — því var hent út í hafsauga til að ná fram þessum markmiðum. Svo heldur hæstv. forsætisráðherra, sem því miður er ekki viðstödd þessa umræðu, að í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis sé haldið fram að það beri að sameina ráðuneytin með þeim hætti sem hér er lagt til.

Ég spyr hæstv. utanríkisráðherra, og það væri ágætt ef hv. þm. Róbert Marshall, formaður hv. allsherjarnefndar, gæti komið hæstv. utanríkisráðherra til aðstoðar í því: Hvar í skýrslunni er lagt til að ráðuneyti séu sameinuð? Ég hef lesið skýrsluna spjaldanna á milli (Gripið fram í.) og í henni er hvergi á það minnst að sameina beri ráðuneyti á þennan hátt. Hæstv. forsætisráðherra hélt þessu fram þann 2. september, líklega í sjónvarpsfréttum frekar en í útvarpsfréttum. Mér þætti vænt um ef hæstv. ráðherra eða formaður hv. allsherjarnefndar gæti bent mér á hvar í skýrslu rannsóknarnefndar þetta er tekið fram. Ég hef lesið skýrsluna og það er tómur þvættingur, það stendur hvergi í skýrslunni.

Þess hefur verið óskað að málið gangi til nefndar og fagnefnda milli 2. og 3. umr. Hv. þm. Einar K. Guðfinnsson gerði það í umræðunni fyrr í dag og ég tek undir þá kröfu. Ég tel mjög mikilvægt að fagnefndir þingsins fái að fjalla efnislega um málið milli 2. og 3. umr. Af hverju segi ég það? Jú, vegna þess að ríkisstjórnin er með tilburði í þá átt að gera enn frekari breytingar á Stjórnarráðinu og sameina atvinnuvegaráðuneytin um áramót. Ég held að það sé einsdæmi í sögu Stjórnarráðsins að tjaldað sé til einnar nætur með þessum hætti með atvinnuvegaráðuneyti. Það segir sig sjálft að þegar slíkar yfirlýsingar eru gefnar er mikil hætta á því að ráðuneytin lamist og að ráðherrarnir sem stýra þeim ráðuneytum geti ekki sinnt störfum sínum vegna þess að þeir óttast um framtíð sína á ráðherrastóli. Við sjáum t.d. framgöngu hæstv. iðnaðarráðherra í umræðum síðustu daga. Það er ekki mikil reisn yfir svörum hennar við fyrirspurnum frá hv. þingmönnum, og stefnumörkunin er engin.

Á sama tíma eru atvinnumál á Íslandi í algjöru uppnámi. Þúsundir Íslendinga ganga um atvinnulausir og íslenska þjóðin hefur aldrei í sögu sinni þurft jafnmikið á öflugum atvinnuráðuneytum að halda og núna. Það sem verra er, fréttir herma að hæstv. forsætisráðherra Jóhanna Sigurðardóttir hafi ofan í kaupið, til viðbótar við að skapa óvissu um framtíð þessara ráðuneyta, lýst því yfir að einstakir ráðherrar í ríkisstjórn hennar séu á skilorði, eins merkilegt og það er nú. Venjulega er talað um að menn sem hafa brotið alvarlega af sér og fengið refsidóma séu á skilorði. Ég veit ekki hvort hæstv. forsætisráðherra er þeirrar skoðunar að hæstv. landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra Jón Bjarnason hafi gengið svo langt í stjórnarandstöðu sinni að hann sé núna kominn á skilorð. (Gripið fram í.) Það þarf ekki mikið ímyndunarafl til að ímynda sér að í orðum hæstv. forsætisráðherra um að ráðherrar séu á skilorði sé átt við hæstv. iðnaðarráðherra Katrínu Júlíusdóttur og hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Þau eru svo að segja búin að fá drög að uppsagnarbréfi frá hæstv. forsætisráðherra sem mælir fyrir um að þau hverfi úr ráðuneytum sínum um áramót.

Það er í sjálfu sér allt í lagi, ég geri engan ágreining um að skipt verði út úr t.d. iðnaðarráðuneytinu. En þetta lamar auðvitað starfsemi atvinnuvegaráðuneytisins á tímum sem eru mjög viðsjárverðir í íslensku atvinnulífi og það er mjög slæmt.

Ég held að ef vilji stendur til að breyta Stjórnarráðinu sé mjög mikilvægt að það sé gert heildstætt en ekki með bútasaumi eins og ríkisstjórnin hefur gert. Það gerði hún með því að færa efnahagsmálin fyrst úr forsætisráðuneytinu, svo með þessu frumvarpi og síðan með væntanlegri stofnun atvinnuvegaráðuneytisins um áramót. Sparnaður af þessum aðgerðum er lítill sem enginn. Það er fyrirséð að gangi Ísland í Evrópusambandið, eins og hæstv. utanríkisráðherra vill, verður ekki mikill sparnaður í íslensku stjórnsýslunni. Þá þarf hún mjög á auknum mannafla að halda.

Ég er opinn fyrir því að gerðar verði breytingar og að við ræðum hvort ástæða sé til að liðka fyrir varðandi breytingar á stjórnsýslunni. Ég útiloka ekki að það kunni að vera skynsamlegt að breyta lagaumhverfinu (Forseti hringir.) sem við störfum í en þá skulum við gera það á öðrum forsendum. (Forseti hringir.) Við skulum ekki ræða það í tengslum við lagafrumvarp hæstv. forsætisráðherra, sem engin samstaða er um á Alþingi (Forseti hringir.) og allra síst í hennar eigin ríkisstjórn.