138. löggjafarþing — 151. fundur,  6. sept. 2010.

Stjórnarráð Íslands.

658. mál
[17:01]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Herra forseti. Ég verð að mótmæla því sem hæstv. utanríkisráðherra segir þegar hann fullyrðir það að hæstv. ráðherra Ögmundur Jónasson njóti fulls stuðnings í þingflokki Samfylkingarinnar. Ég sit auðvitað ekki þingflokksfundi Samfylkingarinnar en ég les bara í þær yfirlýsingar sem komið hafa frá þingmönnum Samfylkingarinnar. Þær bera það með sér að hæstv. ráðherra Ögmundur Jónasson og líklega hæstv. ráðherra Jón Bjarnason sitji í ríkisstjórninni í óþökk þingmanna Samfylkingarinnar. Þar nægir að nefna yfirlýsingar Sigríðar Ingibjargar Ingadóttur, þingmanns Samfylkingarinnar, sem lýsti þessu beinlínis yfir í kvöldfréttum sjónvarps daginn sem breytingar á ríkisstjórninni voru kynntar. Hv. þm. Anna Margrét Guðjónsdóttir lýsti því jafnframt yfir að Samfylkingin hefði neyðst til að taka hæstv. ráðherra Ögmund Jónasson inn í ríkisstjórnina, annars hefði ríkisstjórnin ekki getað starfað áfram. Ég les bara í þessar yfirlýsingar þingmanna og félaga hæstv. utanríkisráðherra og dreg mínar ályktanir af því. Hæstv. ráðherra segir að Vinstri grænir geti ákveðið það sjálfir hverjir skipi ráðherrabekkina af þeirra hálfu og Samfylkingin skipti sér ekkert af því. En það var held ég einsdæmi að áður en nýja ríkisstjórnin var kynnt sá hæstv. forsætisráðherra ástæðu til að kalla hæstv. ráðherra Ögmund Jónasson og Jón Bjarnason á teppið í Stjórnarráðshúsinu, (Forseti hringir.) tugta þá og koma þeim í járn áður en þeir tækju sæti (Forseti hringir.) í ríkisstjórninni. Annars hefðu þeir væntanlega ekki fengið sæti þar nema þeir hefðu gefið eftir.