138. löggjafarþing — 151. fundur,  6. sept. 2010.

Stjórnarráð Íslands.

658. mál
[17:44]
Horfa

Þráinn Bertelsson (U) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka afar merkilega spurningu, hvort sameining ráðuneyta geti leitt til samþjöppunar valds. Vissulega held ég að sú hætta sé fyrir hendi. Ég bind samt vonir við þetta og tel að við eigum að fækka ráðherrum. Það er engin ein tala heilög í því efni en mér er útilokað að skilja hvers vegna þessi dvergþjóð þarf meira en svo sem átta ráðherra. Í kringum átta ráðherra held ég að væri temmilegt að hafa fjóra ráðherrabílstjóra. Og út frá kynjaskiptingu ættu að vera jafnmargir af hvoru kyni, bæði sem bílstjórar og ráðherrar. Að vera ráðherrabílstjóri er núna starf fyrir miðaldra karlmenn eingöngu og bendi ég jafnréttissinnum á það.

Ég tel að hættan á samþjöppun valds sé ekki fyrir hendi og ekki þurfi að hafa áhyggjur af því. Þvert á móti tel ég að með því að fækka ráðherrum aukist vægi þingsins. Með því á sér stað valddreifing sem ég tel mjög eftirsóknarverða í þjóðfélagi þar sem framkvæmdarvaldið ræður allt of, allt of miklu og hefur gert allt of, allt of lengi. Ég tel það beinlínis hættulegt lýðræðinu hvað framkvæmdarvaldið ber höfuð og herðar yfir löggjafarvaldið.