139. löggjafarþing — 151. fundur,  11. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[11:29]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þingmanni fyrir að vera mjög fús til að skoða sérstaklega ákvæðið sem snýr að þessu eina fyrirtæki á Suðurnesjum og fresta gildistöku þess þar til heildarendurskoðun á lögunum fer fram, hvort sem það er eftir tvo, þrjá eða fimm mánuði — það er auðvitað í höndum þingsins að klára það mál. Ég fagna því sérstaklega að hv. þingmaður taki undir þetta sjónarmið og það gerði reyndar varaformaður nefndarinnar, hv. þm. Ólína Þorvarðardóttir, líka.

Hv. þingmaður spyr hvort ég telji að við jöfnun úr pottunum fari allt á hvolf og hvort það hefði alvarlegar afleiðingar fyrir byggðarlögin. Mín skoðun er að það mun ekki hafa alvarlegar afleiðingar. Alls ekki. Ég stend keikur á því. Þegar menn kalla eftir því að það verði skoðað sérstaklega, og æskilegt væri að það yrði gert, ég dreg ekki úr því, verða menn líka að svara spurningunni: Hefur verið gerð úttekt á því hvaða áhrif fyrirkomulagið hefur haft undanfarin 20 ár? Mér er ekki kunnugt um það. Ég hef ekki séð þá úttekt. Þeir sem kalla eftir því að þetta verði skoðað sérstaklega verða þá að svara því af hverju ekki er búið að skoða það sem gert hefur verið síðustu 20 ár.

Ég minni enn og aftur á að við erum ekki bara að tala um uppsjávarveiðar heldur veiðar á 20 tegundum þar sem ekkert er sett í samfélagslegu pottana í dag. Þetta er ekki bara uppsjávarfiskurinn heldur miklu fleiri tegundir. En stærstu sjávarútvegsfyrirtæki landsins setja minnstu prósentuna í þessa tölu. Það er bara svoleiðis. Það eru staðreyndir. Við skulum bara ræða þær eins og þær eru, það þýðir ekkert að fara í kringum þær.

Mín skoðun er alveg skýr: Þeir sem segja að ekki sé búið að skoða afleiðingarnar af þessu, af hverju hafa þeir ekki barist fyrir því að skoða þær afleiðingar sem það hefur haft fyrir þær byggðir sem eru miklu frekar bundnar við bolfiskinn, að skaffa inn í pottana sem alltaf eru að stækka?