139. löggjafarþing — 151. fundur,  11. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[12:38]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þm. Sigmundi Erni Rúnarssyni fyrir svarið sem mér fannst heiðarlegt. Mér fannst það bera vott um umhyggju gagnvart undirstöðuatvinnuvegi þjóðarinnar. Við eigum nefnilega að flýta okkur hægt. Það er alveg hárrétt sem hv. þingmaður segir að á þessum tíu dögum hefur að mínu mati komið í ljós, fyrir utan bullandi ágreining á milli stjórnarflokkanna og einstakra þingmanna, að styttra er á milli manna og þvert á flokka en menn grunar til að ná sameiginlegri sátt um þann grunnatvinnuveg sem sjávarútvegurinn er.

Mín skoðun er að menn eigi að gefa þinginu ákveðið svigrúm og tækifæri til að fara yfir þá þætti sem snerta kerfisbreytingar. Ég er ekki sammála hv. þingmanni um að hinar greinarnar snerti ekki ákveðnar kerfisbreytingar í heild sinni, ég held einmitt að svo sé. Þær greinar sem við ræðum núna hljóta líka að verða undir þegar við tökum heildarfrumvarpið um sjávarútveginn til umræðu en vonandi verður það ekki.

Þess vegna segi ég: (Forseti hringir.) Er ekki eðlilegt að bíða með þessar breytingar þar til stærra frumvarpið, eins og það er oft er kallað, (Forseti hringir.) kemur til umræðu?

Ég hefði gjarnan viljað koma inn á strandveiðarnar en það bíður betri tíma.