138. löggjafarþing — 152. fundur,  7. sept. 2010.

störf þingsins.

[10:31]
Horfa

Ólöf Nordal (S):

Virðulegi forseti. Hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra Árni Páll Árnason sagði í fyrirspurnatíma í gær að endurreisn efnahagslífsins væri mjög undir því komin að samið yrði um Icesave. Ráðherrann sagði, með leyfi forseta:

„Gögn Hagstofunnar falla í sömu átt en þau sýna betur en nokkuð annað tjónið sem þjóðarbúinu hefur verið búið af því að hafa ekki lokið Icesave-málinu í þessa átt.“

Hæstv. iðnaðarráðherra lýsti því jafnframt yfir að stjórnarandstaðan þvældist fyrir og hefði komið öllu í óefni með andófi í Icesave-málinu. Mikil eru verk stjórnarandstöðunnar þegar hér á að heita traustur þingmeirihluti í landinu.

Einnig horfa ráðherrarnir fram hjá því að innan raða ríkisstjórnarinnar eru þingmenn sem hafa staðið með hagsmunum íslensku þjóðarinnar í Icesave-málinu og er hv. þm. Ásmundur Einar Daðason einn þeirra. Hann skrifaði ágæta grein í Morgunblaðið á dögunum þar sem hann lýsti því að ný staða væri komin upp í Icesave-málinu og vísaði þar til yfirlýsinga ESB um að engin ríkisábyrgð væri á bankainnstæðum og jafnframt rökstuddi hann að málstaður okkar og staða hefðu styrkst. Mig langar í ljósi þeirra orða sem hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra lét falla spyrja hv. þm. Ásmund Einar Daðason hvort hann deili skoðunum ráðherrans á lausn Icesave-málsins eða hvort hann sé enn sama sinnis og hann var um að staða Íslands í Icesave-málinu hafi styrkst.