138. löggjafarþing — 152. fundur,  7. sept. 2010.

staðgreiðsla opinberra gjalda o.fl.

693. mál
[11:51]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Ég held að enginn deili um það að framlagning þessa frumvarps og raunar lagasetningarinnar síðastliðið vor þjónar mikilvægum tilgangi. Markmiðið með því að setja reglur af þessu tagi er að tryggja að hægt sé eftir föngum að koma í veg fyrir undanskot eigna þegar mál eru í rannsókn hjá skattrannsóknarstjóra. Það má taka undir það markmið. Þar geta miklir hagsmunir verið í húfi. Eins og kemur fram í greinargerð með frumvarpinu getur rannsókn og rekstur þessara mála tekið langan tíma þannig að full ástæða er til að mögulegt sé að bregðast við með einhverjum hætti.

Ég get tekið undir þau varnaðarorð sem fram komu í máli hv. þm. Tryggva Þórs Herbertssonar hér áðan, um að þess væri gætt að heimildin sem á endanum verður samþykkt út úr þessari lagasetningu verði þannig úr garði gerð að dregið verði úr hættu á því að henni sé beitt óhóflega, þ.e. að reynt sé eftir föngum að stuðla að því að heimildin sé ekki víðtækari en þörf er á og að tryggja möguleika þeirra aðila sem eftir atvikum sæta rannsókn eða tengjast rannsókn til að fá ákvarðanir skattyfirvalda í þessum efnum endurskoðaðar.

Þrátt fyrir að nokkuð liggi á í þessu máli, eftir því sem fram kemur af hálfu hæstv. fjármálaráðherra, tel ég mikilvægt að hv. efnahags- og skattanefnd taki málið til skoðunar efnislega og kalli til ráðgjafar sérfræðinga, bæði innan og utan stjórnsýslunnar og skattkerfisins, til að fá mat á því hversu víðtæk heimild felst í frumvarpstextanum á þessum ákvæðum frumvarpsins og hvernig líklegt er að henni verði beitt. Ég held að það sé afar mikilvægt að menn hafi nokkuð glögga mynd af því áður en þetta verður samþykkt. Ég hygg að þegar lögin voru samþykkt síðasta vor, sem hér er vísað til, hafi ekki verið búið að hugsa fyrir öllum þáttum í því sambandi þannig að sú lagasetning hafi ekki endað í samræmi við þann tilgang sem lagt var upp með. Ég skil málin þannig. Það þarf því að fara vel yfir þetta. Ég legg áherslu á að nefndin annaðhvort leiti umsagna eða fái a.m.k. á sinn fund sérfræðinga á þessu sviði sem geta hjálpað henni að glöggva sig á þessum þáttum, bæði hvað varðar framkvæmd og feril mála innan stjórnsýslunnar, sem um er að ræða í þessum tilvikum, og einnig sérfræðinga utan stjórnsýslunnar sem geta komið með utanaðkomandi mat og lagt í púkkið.

Mitt meginsjónarmið er sem sagt þetta: Markmiðið er að tryggja að einstaklingar sem sæta skattrannsókn vegna brota á skattalögum, því um er að ræða heimild sem má beita út af málum sem eru hjá skattrannsóknarstjóra en það eru eftir atvikum mál sem eru beint brot á skattalögum, ekki endilega þessi venjulegu deilumál sem menn geta átt í við skattstjóra út af hinum og þessum atriðum varðandi álagningu og þess háttar — að leitast verði við að ná þeim markmiðum frumvarpsins að beita kyrrsetningu eigna til að hindra undanskot en á sama hátt verði þess gætt að heimildin verði hvorki víðtækari en þörf krefur né heldur að réttaröryggi sé á nokkurn hátt fyrir borð borið.