138. löggjafarþing — 152. fundur,  7. sept. 2010.

Stjórnarráð Íslands.

658. mál
[12:35]
Horfa

Frsm. meiri hluta allshn. (Róbert Marshall) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Engar tillögur koma frá Sjálfstæðisflokknum í þessu máli. Þeir bjóða bara upp á orðhengilshátt og málalengingar. Þetta mál er þannig vaxið að forsætisráðherra, stjórnvöld í landinu, lítur svo á að hann geti rekið ríkisstjórn Íslands eða stýrt landinu með færri ráðuneytum en áður var gert. Er það þá ekki bara hið besta mál? Ber þá ekki einfaldlega að fagna því? Eða var það svo í tíð Sjálfstæðisflokksins, þegar hann stýrði hér landinu og áður en landbúnaðarráðuneyti og sjávarútvegsráðuneyti voru sameinuð, að fagaðilar væru sérstaklega spurðir að því hvort það væri í lagi? Var fengið sérstakt álit á því hvort það væri í lagi að fara í þá vegferð? Ég geri ráð fyrir því að átt hafi sér stað einhvers konar samráð í sameiningarferlinu. En voru hagsmunaaðilar spurðir sérstaklega að því áður þegar ríkisstjórn Geirs H. Haardes forsætisráðherra leit svo á að hægt væri að sameina þessi tvö ráðuneyti? Ekki minnist ég þess, en ég verð þá leiðréttur ef svo er. Ég held að svo hafi ekki verið. Ég held að ákvörðunin hafi verið tekin á hinum pólitíska vettvangi, síðan hafi hún verið framkvæmd og á framkvæmdatímanum hafi samráðsferli átt sér stað. Það er hin eðlilega röð atvika, hin eðlilega atburðarás í þessu máli.

Það er algjörlega óskýrt hvað það er sem Sjálfstæðisflokkurinn er að gera athugasemdir við í þessu ferli, að það hefði átt að spyrja Landssamband lögreglumanna að því hvort það væri í lagi að sameina dómsmála- og samgönguráðuneytið og fá álit sérstaklega á því, á þeirri pólitísku spurningu sem þegar var búið að svara á hinum stjórnmálalega vettvangi. Hvers lags málflutningur og vinnubrögð eru þetta sem verið er að bjóða hér upp á í þinginu? (Gripið fram í: Af hverju … umsagnarferli?)