139. löggjafarþing — 152. fundur,  11. júní 2011.

prófessorsstaða tengd nafni Jóns Sigurðssonar forseta.

891. mál
[13:54]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Sú tillaga sem hér er til umræðu er flutt af hæstv. forseta þingsins.

(Forseti (RR): Forsætisnefnd.)

Flutningsmaður er hæstv. forseti fyrir hönd forsætisnefndar þingsins. Ég veit ekki hvaða aðra tillögu hv. þingmaður var að vísa til að unnt væri að sameina þessu máli. Ég kem hér upp í ræðu til að fagna þessari tillögu. Frú forseti, það eru tveir fundir í salnum.

(Forseti (RR): Öðrum fundinum er augljóslega lokið.)

Ég er hingað komin til þess að fagna þessari tillögu vegna þess að hún gleður mig sannarlega. Það gleður mig sannarlega ef náðst hefur samkomulag við Háskóla Íslands um að starfrækja þessa prófessorsstöðu vestur á Ísafirði þar sem er vaxandi háskólasamfélag og háskólastarfsemi. Ég sé ekkert því til fyrirstöðu að sá sem gegnir þessari stöðu geti gert það með sóma á þeim forsendum sem lagt er upp með í tillögunni. Ég er því mjög glöð með tillöguna af skiljanlegum og eðlilegum ástæðum og hlakka til að taka þátt í afgreiðslu hennar.