138. löggjafarþing — 152. fundur,  7. sept. 2010.

þátttaka lífeyrissjóðanna í atvinnulífinu.

[11:03]
Horfa

Óli Björn Kárason (S):

Frú forseti. Það verður ekki um það deilt að lífeyrissjóðirnir eru eitt helsta fjöregg okkar Íslendinga og því er mikil ábyrgð lögð á herðar þeirra sem taka að sér að stýra íslenskum lífeyrissjóðum. Þeirra fyrsta og síðasta regla á að vera að gæta hagsmuna sjóðfélaga sinna í hvívetna, fylgja íhaldssamri stefnu og reyna að lágmarka áhættu við ávöxtun sjóðanna. Hér er of mikið í húfi til að einhver ævintýramennska verði látin ráða för. Hitt er svo annað að margir líta til lífeyrissjóðanna þegar kemur að endurreisn íslensks atvinnulífs. Slíkt er eðlilegt en vekur upp spurningar um hvernig standa skuli að verki.

Undir lok síðasta árs var Framtakssjóður Íslands stofnaður með það að markmiði að taka þátt í endurreisninni. Stofnendur ráða yfir 64% af heildareignum lífeyrissjóðanna á Íslandi. Margir þessara lífeyrissjóða hafa hins vegar að undanförnu neyðst til að skerða lífeyrisréttindi vegna þátttöku sinnar í íslensku atvinnulífi á undanförnum árum.

Í ágúst bárust fréttir af því að Framtakssjóðurinn hefði keypt eignarhaldsfélagið Vestia af Landsbankanum og með því eignast sjö fyrirtæki með öllu til viðbótar við tæplega þriðjungshlut í Icelandair sem sjóðurinn átti fyrir. Kaupverð er 19,5 milljarðar kr. en með því eignaðist Landsbankinn 30% hlut í Framtakssjóðnum. Það er augljóst að við söluna gekk Landsbankinn þvert á eigin starfsreglur um gegnsæi og opið ferli við sölu fyrirtækja. Í starfsreglunum var því heitið að ráðstöfun eigna Vestia skyldi fara fram í gegnum opið tilboðsferli og gegnsæis og jafnræðis bjóðenda gætt.

Þessi vinnubrögð eru því miður ekki til þess fallin að auka traust á starfsemi íslenskra banka, Landsbanka þá sérstaklega sem er á ábyrgð íslenska ríkisins. Þvert á móti mun tortryggni aukast.

Að lífeyrissjóðirnir yfirtaki og eignist fjölda fyrirtækja að fullu er ekki aðeins varhugavert heldur að mestu ámælisvert. Þetta á ekki síst við þegar um er að ræða fyrirtæki í samkeppnisrekstri. Slíkt mun skekkja samkeppnisstöðu fyrirtækja, iðgjöld starfsmanna fyrirtækja sem eru í samkeppni við þau fyrirtæki sem Framtakssjóðurinn hefur nú eignast eru nýtt til að styðja við bakið á og efla keppinautinn. Margir þeirra lífeyrissjóða sem standa að Framtakssjóðnum hafa, eins og ég sagði áðan, þurft að skerða lífeyrisréttindi sjóðfélaga sinna. Nú vilja stjórnendur þessara sjóða ávaxta fé í áhættusömum samkeppnisrekstri. Ég óttast að þetta verði til þess að ávöxtun lífeyrissjóðanna verði lakari í framtíðinni og komi niður á lífeyrisréttindum. Þetta er líkt og að pissa í skóinn, manni hitnar í smástund en síðan kemur ofkælingin. Það er alveg ljóst að kaup Framtakssjóðsins á Vestia hafa vakið upp tortryggni meðal almennings og þá ekki síst þeirra tugþúsunda sem eiga aðild að lífeyrissjóðunum sem standa að baki Framtakssjóðnum.

Formaður Framtakssjóðsins hefur þó sagt opinberlega, með leyfi hæstv. forseta:

„Við erum hluti af samfélaginu. Okkar hlutverk er að vera leiðandi í endurreisninni og það verður að gerast í sátt við þjóðfélagið sem er verið að endurreisa.“

Ég fullyrði að kaup Framtakssjóðsins á Vestia eru ekki í neinni sátt við þjóðfélagið heldur þvert á móti í algjörri ósátt. Tortryggnin er mikil enda hafa sjóðfélagar ekkert um það að segja hvernig staðið er að verki.

Vegna þessa vil ég spyrja hæstv. fjármálaráðherra eftirfarandi spurninga:

1. Tekur hann undir áhyggjur mínar og margra annarra af því að kaup lífeyrissjóðanna á heilum fyrirtækjum og fyrirtækjasamsteypum séu áhættusöm, stefni ávöxtun lífeyrissjóðanna í hættu og leiði hugsanlega til skertra lífeyrisréttinda í framtíðinni?

2. Telur hæstv. ráðherra tilefni til að endurskoða reglur um fjárfestingar lífeyrissjóðanna þannig að kröfur til fjárfestinga verði auknar og þar með dregið úr áhættu þeirra?

3. Er hæstv. fjármálaráðherra tilbúinn að taka höndum saman við aðra hér í þingsalnum og endurskoða lög um lífeyrissjóði með það að markmiði að tryggja að sjóðfélagarnir sjálfir hafi beina aðkomu að stefnumótun lífeyrissjóðanna og kjósi með beinum hætti stjórnir þeirra? Með þessum hætti yrði stuðlað að auknu lýðræði og tryggt að stjórnir sjóðanna bæru beina ábyrgð gagnvart sjóðfélögum. Er hæstv. ráðherra tilbúinn til að kveðja þá tíma þegar hægt var að ráðstafa annarra manna peningum án ábyrgðar?