138. löggjafarþing — 152. fundur,  7. sept. 2010.

Stjórnarráð Íslands.

658. mál
[12:39]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég er að velta því fyrir mér hvað gangi á í þingflokki sjálfstæðismanna. Það hefur komið hér fram að hv. þm. Einar K. Guðfinnsson virðist eiga erfitt með að koma á framfæri vilja sínum gagnvart öðrum þingmönnum Sjálfstæðisflokksins. Er búið að skera þá gagnvegi sem þarna lágu áður á millum? Það er einfaldlega ekki nóg að hv. þingmaður komi við 1. umr. fram með einhverjar handahófskenndar, laust orðaðar beiðnir um að málið sé sent til fagnefnda. Ef þingmenn og fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í nefndinni hafa ekki rænu á því að koma þeim boðum á framfæri, eða ef hv. þingmaður hefur ekki óskað sérstaklega eftir því við félaga sína, er ljóst að ekki fylgir mikil alvara slíkri beiðni.

Það sem er að koma fram er að hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa ekki nokkurn einasta áhuga á neinu sem tengist þessu máli nema að nota það til þess að tefja þingstörfin aðeins. Hv. þingmenn og sérstaklega sá sem hér talaði áðan og stýrir nú liðinu er bersýnilega önnum kafinn við að nota þetta mál til þess enn einu sinni af hálfu Sjálfstæðisflokksins að fara í einhvers konar málþóf og eiginlega skiptir litlu máli um hvað. Það er eina ályktunin sem ég get dregið af ræðu hv. þingmanns. Það kemur fram af hálfu formanns nefndarinnar og því er ekki mótmælt af hv. þm. Ragnheiði Elínu Árnadóttur að beiðnin kom aldrei fram í nefndinni. (Gripið fram í: Ó, jú.) Núna er hins vegar kvartað undan því að ekki hafi verið kallað á tiltekna aðila. Það er alveg ljóst hvað vakir fyrir hv. þingmanni. Sömuleiðis liggur það líka fyrir að aðilar, sem kvartað er yfir að ekki hafi getað komið skoðunum sínum á framfæri, gerðu það bréflega.

Mig langar síðan að minna hv. þingmann á hverju hún tók þátt í hér sjálf vorið 2007. Þá greiddi hún hér atkvæði og studdi samruna tveggja ráðuneyta. Hvernig var nú undirbúningurinn að því? Jú, það var eitt samtal á Þingvöllum. Það var undirbúningurinn. Þar var ákvörðunin tekin. Miklu minni undirbúningur en þetta mál hefur fengið, sem hefur þó staðið í undirbúningsferlinu a.m.k. frá því á jólum.