138. löggjafarþing — 152. fundur,  7. sept. 2010.

skipulagslög.

425. mál
[17:02]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér ný skipulagslög. Það er ekki nýtt að hér á þinginu komi þau til tals, ég held að ég fari rétt með það að þetta sé — þetta gæti verið alla vega fjórða þingið, ef ekki það fimmta, sem þau renna hér inn, þessi upphaflegu, sambærilegu frumvarpsdrög sem síðan eru smátt og smátt að taka á sig mynd og verða hugsanlega að lögum í framtíðinni eða á næstu dögum.

Það er kannski rétt að nefna það í upphafi að vegna þess hversu lengi þessi mál hafa verið til umfjöllunar, skipulagslögin og mannvirkjalögin og hugmyndir að þessari sundurgreiningu, að hugmyndafræðin á bak við lögin er kannski orðin átta eða tíu ára gömul og það hefur auðvitað komið til tals í umræðunni að kannski hefði verið skynsamlegast að henda þeim til hliðar og byrja upp á nýtt og búa til alveg nýjan grunn. En ég held að það hafi samt verið niðurstaða allra, ekki síst þeirra sem þurfa að vinna eftir lögunum, að það sé betra að fá þessi lög inn sem fyrst eftir að það er búið að fara vel og gaumgæfilega yfir þau, en hugsanlega hefja í staðinn endurskoðun á heildarpakkanum frá grunni, eins óskemmtilega og það hljómar í eyrum ráðherra og ráðuneytis að hefja þessa vinnu aftur. Þá er ég að velta fyrir mér þeim hugmyndum sem menn hafa komið með um að það sé nauðsynlegt að allur þessi pakki um skipulagsmál og umhverfismat áætlana og mat á umhverfisáætlunum og eins þá mannvirkjalögin séu í einum heildarpakka. Það hafa komið fram nokkrar ábendingar til okkar í nefndinni um það.

Ég vil áður en lengra er haldið hrósa bæði núverandi og fyrrverandi formönnum umhverfisnefndar og nefndarmönnum öllum fyrir gott starf í þessari nefnd. Ég sat í henni fyrir hönd framsóknarmanna í vor og svo aftur núna síðsumars ásamt hv. þm. Gunnari Braga Sveinssyni. Við skiptum á milli okkar þessum verkum og ég vil lýsa því yfir hér að það var farið vel yfir sviðið af öllum nefndarmönnum og undir styrkri stjórn formannanna þannig að ég held að menn séu nokkuð samstiga um — enda hefur það komið fram í umræðunni í dag, það sem ég náði að heyra og hlusta á — að hér sé komið fram það plagg sem við getum látið halda áfram, sem er náttúrlega nýmæli miðað við það sem áður var þegar þessi skipulagslög enduðu alltaf í uppnámi. Aðallega var það nú reyndar vegna landsskipulagsins eða landsskipulagsáætlana, hvernig þær voru, en nú er frumvarpið komið hér inn í öðrum búningi, búningi sem sveitarfélög landsins og við margir hv. þingmenn getum sætt okkur við.

Í nefndarálitinu er auðvitað farið yfir helstu nýmælin í þessu frumvarpi og þau felast í auknu samráði og kynningu auk þess sem það var meiningin að auka skilvirkni og sveigjanleika. Allt eru þetta falleg orð en klárlega er það þó þannig að þó nokkrir hlutir sem við komum inn í frumvarpið og nefndin var sammála um eru til þess gerðir að bæði auka skilvirkni og sveigjanleika.

Einnig eru nokkur nýmæli, þar á meðal skilgreiningar á einstaka hugtökum eins og um landslag og sjálfbæra þróun, svo eitthvað sé nefnt. Helsta álitamálið — og ég ætla ekki að lengja málið, menn hafa farið skýrt yfir þetta í dag — er klárlega þáttur um landsskipulag sem hér er kominn inn. Hann er auðvitað mjög mikilvægur, ég hef verið á þeirri skoðun lengi að það sé nauðsynlegt að hafa landsskipulagsstefnu með einhverjum hætti, að menn viti hvert þeir stefna og sveitarfélög hafi þá eitthvað til að styðjast við. En það er líka jafnmikilvægt að segja það hér að þessi landsskipulagsstefna á ekki að grípa inn í sjálfsákvörðunarrétt sveitarfélaga. Þess vegna þurfum við að fara varlega af stað í þessu máli og feta þennan stíg varlega. Umræðan hér áðan um samþættingu sóknaráætlana og stýringu á einstökum hugmyndum eða framkvæmdum er einmitt þess eðlis að á sínum tíma fældi hún frá stuðninginn við landsskipulag. Við þurfum því að fara varlega inn í þetta og það er afar mikilvægt að í 10. gr. 4. mgr. er sveitarfélögum, sem er auðvitað skylt að fara yfir endurskoðun aðalskipulags í upphafi kjörtímabils, skylt að athuga hvort það samræmist þá landsskipulagsstefnunni, en þá geta sveitarfélögin rökstutt sig frá því að fylgja henni í einu og öllu og það er afar mikilvægur punktur.

Annar mikilvægur punktur kom inn á nefndarstiginu frá hv. þm. Kristjáni Þór Júlíussyni um sérstaka verkefnisstjórn. Ég held að það hafi verið ákaflega skynsamleg tillaga að slík stjórn færi með yfirstjórnina á þessu landsskipulagi. Það er sem sagt tortryggni í garð ríkisins á öllum sviðum, ekki síst hjá sveitarfélögunum, og það er mikilvægt að menn geti stigið þarna varlega til jarðar og Skipulagsstofnun, sem eðlilega mun vinna hluta af vinnunni, sé ekki sett við það borð að þurfa bæði að vinna landsskipulagið frá A til Ö, leggja það til og síðan verja það gagnvart sveitarfélögunum og dæma um það hvort aðalskipulag sveitarfélaga sé sambærilegt.

Síðan eru ákvæði um gjaldtöku sem eru mörg hver áhugaverð. Til að mynda ákvæði um skipulagsgjald. Það hefur gjarnan og lengi verið gagnrýnt mjög harðlega, ekki síst af þeim sem byggja, að þegar þeir eru búnir að öllu fái þeir reikning fyrir einhverju gjaldi frá sýslumanni sem heitir skipulagsgjald, sem er umtalsverð upphæð að þeirra mati, og þeir bölva þá sveitarfélögunum og skipulagsnefndum sveitarfélaga fyrir vikið en þetta hefur ekkert með það að gera, þetta rennur til ríkisins. Mikilvægt er að þetta gjald komi fyrr til greiðslu þannig að réttur aðili greiði það og að menn átti sig líka á því fyrir hvað er verið að greiða. Skipulagssjóður blandast hér inn í líka, það skiptir máli og ég ætla að nefna það hér, og það kemur nú fram í nefndarálitinu að sveitarfélögin fá endurgreiðslur úr þessum Skipulagssjóði með mismunandi hætti. Sennilega fá flest eða öll stóru sveitarfélögin hér á suðvesturhorninu 50% beint úr Skipulagssjóði, og líklega Akureyri og Akranes líka, en önnur sveitarfélög hafa ekki fengið að komast í þann pott þrátt fyrir að hafa sótt um það. Þau hafa sem sagt þurft að fara aðra leið, að semja um endurgreiðslu. Þetta er eitthvað sem er vert að skoða, hver tekur ákvörðun um þetta og á hvaða grundvelli slík ákvörðun er tekin. Það er ekki auðvelt að setja það í lagatexta með hvaða hætti nákvæmlega slíkt jafnræði sveitarfélaga þarf að vera en það þarf að vera.

Síðast en ekki síst, og ég ræddi það líklega við 1. umr. hér í vor, þá setti nefndin inn nýja breytingartillögu um að setja fram gjaldtökuheimild vegna skipulagsvinnu og það er ákaflega mikilvægt. Það má nefna að þær hugmyndir sem hafa verið uppi um að Skipulagssjóður standi undir öllum þessum greiðslum og að menn geti sótt í hann, ganga til að mynda ekki. Það má nefna að sveitarfélagið Skeiða- og Gnúpverjahreppur gat ekki sótt í þann sjóð vegna þeirra framkvæmda og skipulagsvinnu sem þurfti að fara í vegna virkjanaframkvæmda, hann hafði ekki rétt til þess vegna þess að um endurskoðun og breytingu á aðalskipulagi var að ræða. Ég held að þetta sé nauðsynleg gjaldtaka og menn geta auðveldlega rökstutt að það sé nauðsynlegt fyrir sveitarfélög stór sem smá að geta innheimt eðlilegt gjald vegna útgjalda sem þau verða fyrir vegna áhuga einhverra framkvæmdaraðila til þess að fara í uppbyggingu.

Síðan er mjög mikilvægt atriði í þessum lögum en það er að Skipulagsstofnun getur staðfest aðalskipulag og svæðisskipulag og hefur að hámarki fjórar vikur til þess. Það hefur loðað við allt of lengi og í mörg ár að fyrst fara málin til Skipulagsstofnunar í ákveðinn tíma og síðan til ráðuneytis og ráðherra. Það hefur valdið því að í mörgum tilvikum hefur tíminn sem í þetta fer orðið allt of langur og hann hefur líka verið ógegnsær, menn vita ekki hversu langan tíma þetta mun taka og ferlið hefur tekið allt upp í eitt og hálft ár. Það er auðvitað ómögulegt fyrir sveitarfélög að geta ekki vitað meira um slíkt.

Síðan er eðlilega inni að hægt sé að kæra úrskurð Skipulagsstofnunar til ráðherra vegna staðfestingar á aðalskipulagi og svæðisskipulagi og það er miklu eðlilegri leið. Eins að málið fari til ráðherra ef Skipulagsstofnun synjar skipulagi staðfestingar og það er einn þáttur sem ég held að við ættum að skoða milli 2. og 3. umr. Ég hef það ekki alveg á takteinum hvort sá tími sem ráðherra hefur þá til að fjalla um málið sé tryggður og ég held að það sé þáttur sem við þurfum að fara yfir, hversu langan tíma ráðherra hefur til að fara yfir mál vegna kæru um staðfestingu eða synjun Skipulagsstofnunar á aðalskipulagi eða svæðisskipulagi.

Aðrir þættir sem við þurfum aðeins að skoða milli 2. og 3. umr. eru til að mynda 4. mgr. 34. gr. Ef ágreiningur er milli tveggja aðliggjandi sveitarfélaga um aðalskipulag er inni nýmæli þess efnis að ráðherra geti úrskurðað um það. Ég held að það gangi of langt á sjálfsákvörðunarrétt sveitarfélaga og ég held að við þurfum aðeins að fara yfir það hvort þetta sé ekki óþarfi. Við ræddum heilmikið í nefndinni um ágreining um svæðisskipulag sem ekki er hægt að leysa og við gátum ekki leyst þann vanda. Það er ekki auðvelt því að annars vegar er auðvitað löngunin til þess að geta fundið einhvern farveg til úrlausnar mála og svo hins vegar sú staðreynd að sveitarfélög og íbúar þeirra hafa sjálfsákvörðunarrétt og við getum auðvitað ekki tekið þann lýðræðislega rétt af þeim.

Í lokin langar mig að nefna nokkra hluti sem má segja að séu ekki endilega hluti af efni þessa frumvarps en kannski nauðsyn að skoða þá annars vegar í nefndinni og hins vegar að beina því til ráðuneytisins að skoða þá. Það er til að mynda einhvers konar samþætting Jarðaskrár sem liggur í landbúnaðarráðuneyti, Fasteignaskrárinnar og þinglýsingu sýslumannsembætta sem hefur verið unnið að síðustu tvö ár. Þessar þrjár skrár hafa á köflum verið mjög misvísandi og valdið því að erfitt er að fylgjast með því hvaða stöðu eignir hafa og hvort þær séu jafnvel til. Þetta er auðvitað ómögulegt og þyrfti að samþætta þessar skrár hjá hinu opinbera. Þetta er eitthvað sem við ættum kannski að nefna líka í nefndinni milli 2. og 3. umr.

Varðandi úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála voru uppi hugmyndir um að lengja þann tíma sem hún hefur að lögum, en í sjálfu sér má halda því fram að sú lenging sé hálftilgangslaus eða tilgangslítil þegar staðreyndin er sú að fyrirkomulag mála þar er þannig að það tekur jafnvel tvö, þrjú ár að fá úrskurð, en ekki þrjá mánuði og þá er náttúrlega tilgangslítið að lengja þann tíma í sex mánuði. Það kemur reyndar fram í nefndarálitinu að það sé nauðsynlegt að beina því til framkvæmdarvaldsins að gera það sem gera þarf til þess að taka þennan kúf af, því það er afar mikilvægt að úrskurðarnefndin geti fellt úrskurði sína strax og innan þessara þriggja mánaða. Ef niðurstaða þessara mála frestast í kannski eitt, tvö og jafnvel þrjú ár þá geta framkvæmdir verið komnar langt á veg, jafnvel allri uppbyggingu verið lokið og síðan fellur málið á einhverjum formgalla. Þá er það eina sem hægt er að gera að rífa tugmilljóna hús til þess eins að breyta skipulagi og byggja húsið aftur. Þetta hefur auðvitað engan tilgang í lögunum. Þess vegna þarf úrskurðarnefndin að geta stöðvað framkvæmdir strax. Á sama hátt getum við sagt að það getur verið erfitt að stöðva framkvæmdir í þrjú ár á meðan mál liggur inni í úrskurðarnefndinni þannig að þarna er mjög mikilvægt að framkvæmdarvaldið girði sig í brók, eins og einhver gæti sagt, og komi þessum málum í réttan farveg. Þá gætum við kannski tekið umræðu um það hvort þrír mánuðir séu nóg eða hvort sex mánuðir séu betri, en þangað til held ég að tilgangslítið sé að ræða þetta.

Að lokum langar mig að nefna að ég held að þetta frumvarp sé á margan hátt sveigjanlegt og henti þar af leiðandi mismunandi sveitarfélögum í landinu. Ég hef verið rætt það, bæði á þingi og eins í fyrra starfi mínu sem forsvarsmaður dreifbýlissveitarfélags og skipulagsmála þess svæðis, að skipulagslögin hafi ekki tekið nægilegt tillit til dreifbýlisins. Margir þættir hafa gert það að verkum og til að mynda er gjaldtaka fyrir skipulagsvinnu eitt af þeim lykilatriðum sem styrkja stöðu dreifbýlisins vegna þess að það er mjög algengt, ég segi ekki alveg algilt, að unnið sé á landi einkaaðila eða þriðja aðila og að sá aðili komi með hugmyndina á meðan í þéttbýlinu er miklu algengara að þéttbýlið eða sveitarfélagið eigi allt land. Þess vegna hefur þessi mismunun þéttbýlis og dreifbýlis verið talsvert áberandi.

Mig langar til að nefna einn eða tvo þætti í viðbót, til að mynda að við breytingar á aðalskipulagi, sem geta verið óverulegar eins og í 36. gr., gæti verið óþarfi að gera sömu málsmeðferðarkröfur og ef verið væri að gera nýtt og heilt aðalskipulag fyrir sveitarfélag. Þarna gæti þurft að treysta sveitarfélögunum og Skipulagsstofnun og apparötum þeirra meira fyrir ákvörðunum, Skipulagsstofnun fylgist auðvitað með og hægt væri setja þetta í þröngt ferli. Við erum alveg sammála um það í nefndinni að í öllum stærri málum sé nauðsynlegt að auka kynningu þannig að íbúar eigi auðveldara með að koma sjónarmiðum sínum á framfæri.

Enn frekar má segja að í sambandi við deiliskipulag í dreifbýli getur maður kannski ekki séð tilganginn í því að fara í þrefaldar kynningar á einhverju einföldu deiliskipulagi til að byggja eitt útihús á afskekktri jörð þar sem enginn annar kemur að. Við þurfum að velta fyrir okkur hvort við séum ekki komin of langt í miðlægu skipulagsvaldi og það væri kannski eðlilegra að sveitarfélagið gæti tekið ákvarðanir um einstakar framkvæmdir. Í þessu sambandi hef ég notið góðra punkta frá sveitarfélögunum, þ.e. þeim sem vinna fyrir hönd sveitarfélaganna, Sambandi íslenskra sveitarfélaga og eins skipulagsfulltrúum í dreifbýlissveitarfélögum og ég vil nefna Pétur Inga Haraldsson hjá byggðasamlagi uppsveita Árnessýslu og Flóahrepps, sem hefur verið í talsvert mikilli vinnu við það að átta sig á því hvernig best er fyrir komið skipulagsþættinum í dreifbýli á móti skipulagsþættinum í þéttbýli.

Ég vil ljúka þessu máli með því að segja að ég held að hér sér að verða til ágætis plagg sem er líklegt til að fara í gegnum þingið og sérstaklega þegar við höfum kíkt á þetta í nefndinni milli 2. og 3. umr. Ef við höldum sama góða anda þar inni og verið hefur tel ég mjög líklegt að við náum samstöðu um þær litlu breytingar sem ég hef lagt hér til.