145. löggjafarþing — 152. fundur,  14. sept. 2016.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

853. mál
[13:32]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Þetta er nú óttaleg hártogun sem á sér stað í þessari umræðu. Það stendur í þingsköpum að atvinnuveganefnd skuli sjá um sjávarútvegs-, iðnaðar- og orkumál, nýsköpun og tækni, atvinnumál almennt og einnig nýtingu auðlinda á grundvelli rannsókna og ráðgjafar. Um umhverfisnefnd segir að hún skuli sjá um verndun og sjálfbærni á sviði auðlindamála almennt.

Þetta er spurning um nýtingu og vernd og það getur hver sem er séð það á þessum texta að það er fullur rökstuðningur samkvæmt þingsköpum að þessu máli sé vísað til atvinnuveganefndar og í raun miklu ríkari þáttur þar sem hér segir að það skuli einnig fjallað um nýtingu auðlinda á grundvelli rannsókna og ráðgjafar. Það er nákvæmlega það sem hin ráðgefandi verkefnisstjórn er að gera, hún er ráðgefandi í þessu og hún hefur stundað ákveðnar rannsóknir og þetta stendur hér skýrum orðum. Þessu hefur ekkert verið breytt. (Forseti hringir.) Þetta eru auðvitað bara hártoganir sem eiga ekkert upp á borðið í þessu máli. Við skulum bara ljúka atkvæðagreiðslu um þetta.