138. löggjafarþing — 153. fundur,  8. sept. 2010.

niðurstaða nefndar um fiskveiðikerfið -- afstaða Sjálfstæðisflokksins til AGS o.fl.

[11:01]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Virðulegur forseti. Ég þakka orðið. Mér er mikið mál eins og komið hefur í ljós. Mér finnst athyglisvert að heyra hvernig fjórflokkurinn hefur, a.m.k. að hluta, slegið skjaldborg um sægreifana. Það kemur mér ekkert á óvart að pólitískur armur LÍÚ á þingi, Sjálfstæðisflokkurinn, geri það en það kemur mér meira á óvart, eins og kom fram í máli mínu, á hvaða vegferð t.d. Vinstri grænir eru. Fulltrúi Vinstri grænna, Björn Valur Gíslason, er samkvæmt forstjóra Brims í leyfi frá útgerðinni til að sinna þingstörfum. Ég tel rétt að það komi fram í sölum Alþingis.

Hann hélt ýmsu fram sem skiptir í rauninni engu máli, eins og t.d. að nefndin vilji að það fari í stjórnarskrá hver á kvótann. Það er stjórnlagaþingið sem tekur ákvörðun um það. Það hefur ekkert með þessa nefnd að gera.

Hv. þingmenn Björn Valur Gíslason og Gunnar Bragi Sveinsson, sem nota bene er í flokki Halldórs Ásgrímssonar sem í sjávarútvegsráðherratíð sinni skaraði heldur betur eld að köku fjölskyldufyrirtækis síns með kvótamálinu — (Gripið fram í: Þetta er ósatt.) Við sjáum í þinginu í þessu máli eins og svo mörgum öðrum að hagsmunir og þræðir liggja um allt, úr atvinnulífinu og til þingmanna og hugsanlega í vasa þeirra. Þetta kemur skýrt fram í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis. Ég er ekki að vísa í hv. þm. Gunnar Braga Sveinsson, alls ekki í þessu tilviki, ég vil að það komi rétt fram. (Gripið fram í: En hverja þá? Þetta er …) En þessir þræðir eru úti um allt eins og kemur fram í skýrslu (Gripið fram í.) rannsóknarnefndarinnar og það er rétt að menn leggist yfir þá (Gripið fram í.) skýrslu og hegði sér sem þingmenn og fulltrúar almennings í framhaldi af því en ekki sem fulltrúar sérhagsmunaaðila sem hafa hingað til getað mokað endalaust fjármunum í stjórnmálaflokka og (Forseti hringir.) stjórnmálamenn.