138. löggjafarþing — 153. fundur,  8. sept. 2010.

orð þingmanna í umræðu um störf þingsins.

[11:06]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Ég vil akkúrat gera athugasemd við fundarstjórn forseta vegna þess að hér kemur hæstv. fjármálaráðherra önugur mjög og ræðir, ekki um fundarstjórn forseta heldur kemur með alls lags blammeringar. (Gripið fram í.) Ég veit ekki betur en að hæstv. fjármálaráðherra hafi farið yfir víðan völl, talað efnislega um eitthvað allt annað en fundarstjórn forseta. Hann veittist hér mjög ómaklega — (Fjrmrh.: … svara fyrir sig.) (Gripið fram í.) Þetta er ekki liðurinn hæstv. fjármálaráðherra svarar fyrir sig, þetta er liðurinn um fundarstjórn forseta. (Fjmrh.: … orðið, ég komst ekki að …) Ef hæstv. fjármálaráðherra gæti gefið mér næði til að ljúka máli mínu. (Gripið fram í.) [Kliður í þingsal.]

Nú skulum við, virðulegur forseti, og við öll sem hér inni sitjum aðeins taka okkur saman í andlitinu og gera dálítið eins og gert er í leikskólunum. Við skulum setjast og hugleiða, eða eins og gert er í Barnaskóla Hjallastefnunnar. Þar kjarna börnin sig þegar þau eru komin fram úr sér. (Forseti hringir.) Ég hvet hæstv. fjármálaráðherra sérstaklega til að gera það vegna þess að mér finnst hann ekki vera í jafnvægi þessa stundina.