138. löggjafarþing — 153. fundur,  8. sept. 2010.

iðnaðarmálagjald.

661. mál
[11:39]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir yfirgripsmikla ræðu. Ég saknaði þess að hann færi inn á þann vinkil, ef svo má segja, sem fjallar um að menn séu þvingaðir til að fjármagna skoðanir og áróður sem gangi gegn þeirra eigin sannfæringu sem er kannski meginatriðið í þessu máli. Menn voru neyddir til að greiða í samtök sem voru með málefni á stefnuskrá sinni sem gekk gegn sannfæringu viðkomandi. Þar gæti t.d. verið um að ræða aðild að Evrópusambandinu sem var mjög mikið rætt. Fyrsta spurningin er hvort hv. þingmaður telji þetta ekki vera nokkuð veigamikinn þátt í dómi Mannréttindadómstólsins.

Svo vil ég einnig spyrja hv. þingmann um alvarlegt mál eins og mannréttindabrot, sem er stjórnarskrárbrot. Það er verið að brjóta gegn stjórnarskrá Íslands. Að menn skyldu ekki ganga hreint til verks eftir dóminn og afnema viðkomandi lög, jafnvel aftur í tímann þannig að endurgreiðslur færu til þeirra sem voru neyddir til að borga inn í félög sem þeir vildu ekki vera aðilar að og auk þess látnir fjármagna skoðanir sem þeir voru á móti. Mér finnst eðlilegt að gjaldið sé afnumið aftur í tímann eins langt og fyrningarreglur leyfa. Ég reikna reyndar ekki með því að mikið verði um útgreiðslur en mér finnst að þeir aðilar sem voru neyddir til að greiða fyrir áróður gegn sjálfum sér fái sitt gjald endurgreitt eins langt og fyrningarreglur leyfa. Ég vil spyrja hvort það hafi ekki verið rætt í nefndinni.

Svo vekur það líka áhuga minn að allir mannréttindafrömuðir þingsins eru farnir af velli þegar við ræðum þetta mikla mannréttindamál.