138. löggjafarþing — 153. fundur,  8. sept. 2010.

útlendingar.

507. mál
[14:11]
Horfa

Róbert Marshall (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Ég vil taka undir með hv. þm. Þór Saari í þessum efnum og ekki bregða fæti fyrir þingmenn sem ganga hér um þingsalinn með orðum mínum. Hér er gríðarlega mikilvægt frumvarp á ferðinni, og önnur frumvörp sem við afgreiðum hér sem fela í sér miklar réttarbætur á sviði sem oft hefur verið tilfinning manna að væri fullkaldhamrað og harðneskjulegt þannig að hér er um mikilvægar bætur að ræða fyrir hælisleitendur og flóttamenn.

Ég vil sérstaklega þakka sérfræðingum Lagastofnunar Háskóla Íslands, Dóru Guðmundsdóttur lögfræðingi og Kristínu Benediktsdóttur héraðsdómslögmanni, sem unnu að beiðni dómsmála- og mannréttindaráðuneytisins að þessu máli, og jafnframt hv. þm. Merði Árnasyni og ritara allsherjarnefndar, Elínu Valdísi Þorsteinsdóttur, fyrir gríðarlegt vinnuframlag í þessu flókna og erfiða en um leið mjög mikilvæga máli.