139. löggjafarþing — 153. fundur,  11. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[17:18]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það er fróðlegt að heyra hvernig hv. þingmaður talar um íbúa í heilli álfu þar sem er fullt af ríkjum sem hafa vissulega atvinnu af og þekkingu á fiskveiðum. Látum það þó vera.

Það er eitt annað sem ég ætla að segja við hv. formann Sjálfstæðisflokksins sem talar bara um hagsmuni útgerðarinnar, talar ekkert um hagsmuni íbúanna á stöðum eins og Flateyri. Á síðustu árum hefur byggst upp mikið óþol með stjórnkerfi fiskveiða út af þessari skuggahlið, út af atburðarás sem við höfum séð sums staðar fara sem eld um byggðarlög. Sjálfstæðisflokkurinn kemur núna hingað og talar um að þessi ríkisstjórn hafi skapað svo mikla óvissu um kerfið. Þetta óþol sem hefur byggst upp hefur skapað óvissuna vegna þess að meira að segja útgerðin veit að það þarf með einhverjum hætti að svara því. Hv. þingmaður fór fyrir þeim sem komu í veg fyrir það, og hans flokkur hér fyrir nokkrum árum, t.d. þegar hv. þingmaður var í forustu fyrir þeim sem í fyrsta lagi eyðilögðu möguleika á því að þingið sameinaðist um að taka í stjórnarskrá ákvæði um sameign þjóðarinnar. (BjarnB: Ósatt.) Í öðru lagi hefur Sjálfstæðisflokkurinn árum saman slegist fyrir hagsmunum stórútgerðarinnar í þessum sölum með því annaðhvort (Gripið fram í.) að koma í veg fyrir hækkun á veiðigjaldinu eða hreinlega stundum leggja fram tillögur um að lækka það. Ef þetta tvennt hefði gerst, ákvæðið hefði verið tekið inn í stjórnarskrá og veiðigjaldið hækkað dálítið hressilega, hugsa ég að það óþol sem menn eru að svara núna væri ekki til staðar. Staðan hjá útgerðinni væri kannski miklu tryggari þannig að Sjálfstæðisflokkurinn hefur svo sannarlega kastað eldivið á þennan bálköst sem formaður Sjálfstæðisflokksins segir að sé núna í ljósum logum.