139. löggjafarþing — 153. fundur,  11. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[17:28]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Við viljum mjög gjarnan fá að taka þátt í því verkefni að skapa sátt um fiskveiðar á Íslandi. Við höfum unnið að því í marga áratugi. Sú aðferðafræði sem ríkisstjórnin beitir, að búa til súperþingmannanefnd átta manna eða sex manna eða hvað það var, halda málinu hjá sér, vera með það í fanginu í átta mánuði, hunsa samráðið sem áður var gert, mun ekki leiða til neinnar sáttar.

Ég vek athygli hv. þingmanns á því að í öllum umsögnum um þetta frumvarp kemur fram að stóra markmiðið sem hann er að gera að umtalsefni, nýliðunin, næst ekki með þessu frumvarpi. Það kemur fram í umsögnum smábátaútgerðarmanna og annarra. Það vinnur gegn nýliðun sem verið er að gera hér. Það er verið að stórauka félagsleg einkenni kerfisins með þeim breytingum sem er verið að innleiða hér með þessu frumvarpi og því sem boðað er. Það er mjög miður. Það er meira að segja verið að leggja það til í stóra frumvarpinu að varanlegt framsal verði bannað með öllu. Allir þeir sem um þessi mál fjalla af einhverri þekkingu, prófessorar í hagfræði og þeir sem hafa varið starfsævi sinni í að setja sig inn í hin ólíku kerfi, hafa sagt um framsalið að þetta sé eitt mikilvægasta framlag okkar Íslendinga til þróunar á fiskveiðistjórn í heiminum. Þess vegna eru aðrar þjóðir að fara að taka það upp. Nei, þá er íslenska ríkisstjórnin að fara í hina áttina, banna framsalið, auka félagsleg úrræði.

Hér er talað um ungt fólk í útgerð. Ég bið hv. þingmenn sem taka þátt í þessari umræðu að beina orðum sínum til þeirra ungu manna sem eru í útgerð, og þeir eru úti um allt land, sem hafa skuldsett sig og farið inn í greinina. Nú á að fara að taka af þeim heimildir. (Forseti hringir.) Talið til þessara manna sem eru með fjölskyldur, börn og fjárfestingu. Talið til þeirra og útskýrið fyrir þeim hvers vegna hátt í 10% af öllum aflaheimildum þeirra í bolfiski eiga að fara í félagsleg úrræði (Forseti hringir.) vegna þess að einhverjir aðrir ungir menn eigi frekar að komast að. (Gripið fram í.)