145. löggjafarþing — 153. fundur,  19. sept. 2016.

yfirlýsing forseta um skýrslu fjárlaganefndar.

[16:29]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Eins og hér hefur margoft komið fram var hv. þm. Brynjar Níelsson að fjalla um allt önnur efnistök og var ekki með sömu upplýsingar og koma fram í skýrslunni, með fylgiskjölum. Af hverju ekki? Þetta er nýtilkomið. Eins og hæstv. virðulegur forseti fór yfir áðan hefur verið unnið að þessu undanfarna mánuði og í lengri tíma. Þetta var bókað sérstaklega nú á vormánuðum. Það hefur ekki verið neitt leyndarmál um það. Þegar menn koma — og það eru Píratar sem koma hér og segja: Burt með þessar upplýsingar, þær mega alls ekki sjást. Mér finnst það vera nokkuð sérstakt. (Gripið fram í.) Ég vek athygli á því að hér er öll áhersla lögð á formið á meðan ýmsir í fjölmiðlum hafa sagt að þeim þyki sjálfsagt að óháður aðili skoði þetta. Ég legg nú til að við gerum það. (Forseti hringir.) Það ætti nú að vera þokkaleg samstaða um það miðað við umræðuna alla jafna.