138. löggjafarþing — 153. fundur,  8. sept. 2010.

iðnaðarmálagjald.

661. mál
[11:51]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Við ræðum nefndarálit frá meiri hluta hv. iðnaðarnefndar um breytingar á lögum um iðnaðarmálagjald. Ég hélt ítarlega ræðu við 1. umr. þar sem ég fór í gegnum flest atriði sem máli skipta. Í gegnum tíðina hafa margir þingmenn á Alþingi sýnt mannréttindum sérstakan áhuga sem er vel. Auðvitað eiga allir þingmenn að standa vörð um mannréttindi, það er eins með þau áhugamál og önnur að þau breytast. Nú bregður svo við þegar Mannréttindadómstóll Evrópu, sá æðsti sem fjallar um mannréttindi, æðri en Hæstiréttur og æðri en héraðsdómstólar, kveður upp úrskurð um það að lög frá Alþingi brjóti mannréttindi eru þeir hv. þingmenn sem hafa haft sig mikið frammi í mannréttindamálum, ég minnist öryrkjadómsins og kvótadómsins, allir horfnir en sumir sitja samt enn þá á þingi. Þeir sitja ekki í salnum núna og ég sakna þess, frú forseti.

Mér barst bréf frá Meistarafélagi húsasmiða sem ég ætla að lesa, með leyfi forseta:

„Reykjavík, 26. ágúst 2010. Ágæti þingmaður. Þann 27. apríl síðastliðinn komst Mannréttindadómstóll Evrópu að þeirri niðurstöðu að íslensk lög um iðnaðarmálagjald stæðust ekki ákvæði mannréttindasáttmála Evrópu. Dómurinn er alveg kristaltær. Álagning iðnaðarmálagjalds brýtur gegn ákvæðum sáttmálans um félagafrelsi, tjáningarfrelsi og skoðanafrelsi. Íslenska ríkinu ber sem sagt að afnema lög um iðnaðarmálagjald, nr. 134/1993. Samkvæmt stjórnarfrumvarpi til laga um iðnaðarmálagjald er ráðstöfun gjaldsins 2010 og afnám þess“ — frú forseti, það er málið sem við ræðum nú, 661. mál — „er ljóst að íslenska ríkisstjórnin ætlar að hunsa ofangreindan dóm. Í stað þess að bregðast rétt við honum og hefja umræður um það hvernig bæta skuli skaða okkar félagsmanna og endurgreiða ólöglegan skatt, samanber lög um endurgreiðslu oftekinna skatta og gjalda, ætlar ríkisstjórnin augljóslega ekki að hætta mannréttindabrotum. Meistarafélag húsasmiða mótmælir eindregið þessari ætlun íslensku ríkisstjórnarinnar hæstvirtar og krefst þess að íslenska ríkið hlíti dómi Mannréttindadómstóls Evrópu undanbragðalaust.“ Undir þetta ritar fyrir hönd Meistarafélags húsasmiða Baldur Þór Baldvinsson formaður.

Þarna er tekið undir sjónarmiðið sem ég nefndi í 1. umr. Ég hef ítrekað flutt frumvarp um að lögin yrðu afnumin vegna þess að ég áttaði mig á því að þetta væri mannréttindabrot. Hið háa Alþingi hefur ekki tekið af skarið fyrr en nú þegar fram kemur frumvarp frá ríkisstjórninni um að lögunum skuli verða breytt, ekki afnumin. Lögin eru ekki afnumin eins og hér hefur verið haldið fram. Lögunum er breytt og þau standa áfram um aldur og ævi, þótt ekkert gjald verði innheimt.

Ég hefði talið eðlilegra að lögin yrðu afnumin. Og — (Gripið fram í: Það er það sem við ætlum að gera.) nei, það stendur — (Gripið fram í: Lestu nefndarálitið.) ég ætla að lesa nefndarálitið, já. Það er kannski vegna anna sem ég hef ekki komist í það. Jú, það er rétt. Það á að afnema gjaldið. Það er gott skref í rétta átt. Síðan ættu menn að skoða önnur gjöld af svipuðum meiði. Búnaðarmálagjaldið kemur fyrst upp í hugann og ýmis gjöld í sjávarútvegi þar sem ríkisvaldið innheimtir ekki skattinn heldur bankakerfið, sem er ótrúlegt. Það er ótrúlegt að einhverjir aðilar úti í bæ, einhverjir einstaklingar eða fyrirtæki séu sett í að innheimta skatta.

Svo er fiskiræktargjaldið. Virkjanir þurfa að borga skatt til fiskiræktar á stöðum eins og við Hálslón þar sem ekki er einn einasti fiskur og hefur aldrei verið. Það eru fleiri gjöld sem gjarnan mætti leggjast yfir eins og STEF-gjöldin. Ég skora á hv. formann nefndarinnar að taka þessi mál upp í nefndinni og sinna þeirri lagasetningu sem Alþingi á að gera og flytja frumvörp um að þessi gjöld verði afnumin. Mér sýnist að dómur Mannréttindadómstólsins gangi þvert á þessa lagasetningu. Við erum með mörg önnur gjöld sem eru enn þá verri. Ég nefni orlofsheimilagjaldið og sjúkrasjóðsgjaldið. Ég nefni nýja fræðslugjaldið. Þar er öllum gert að greiða það. Það er ekki búið að ákveða hvað gjaldið á að vera hátt. Það er samningur um það við einhverja aðila úti í bæ. Það er ekki búið að ákveða hvert gjaldið á að fara. Það á að fara í fræðslusjóð sem þýðir væntanlega fræðslu-eitthvað. Það á að fara í sjúkrasjóð sem þýðir væntanlega sjúkra-eitthvað. Það eru engin lög til um þessi fyrirbæri.

Ég skora á hv. nefnd að afnema þessi gjöld sem búið er að setja á atvinnulíf og einstaklinga, greinilega í andstöðu við niðurstöðu Mannréttindadómstólsins. Sjúkrasjóðsgjaldið á að renna til sjúkrasjóða stéttarfélaganna. Það er ekki orð um það hvernig stjórnun þeirra verður háttað, ekki orð um bókhald, ekki orð um það hvernig á að nota peningana. Væntanlega í sjúkra-eitthvað. Gjaldið er reyndar ákveðið í lögum, það verður 1%, en ekki er ákveðið hver innheimtir það eða hver leggur það á. Það er á hendi almennra félaga. Það sem gerist, frú forseti, er að sjúkrasjóðurinn hringir, það er meira að segja lífeyrissjóðurinn sem innheimtir gjaldið. Hann hefur samband við fyrirtæki og segir því að það eigi að borga þetta gjald, ella verður sendur lögfræðingur. Alveg óháð því hvort fyrirtækið er í samtökunum sem standa að lífeyrissjóðnum eða ekki. Þetta eiga öll fyrirtæki að greiða. Ég sé ekki hvernig hægt er að standa að svona lagasetningu þar sem gjaldið er lagt á ákveðinn skattþegn með lögum. Það er ekkert um það hvernig eigi að ráðstafa gjaldinu. Upphæðin er ekki einu sinni nefnd í lögunum um fræðslugjaldið.

Ég held, frú forseti, að Mannréttindadómstóll Evrópu hafi með þessum dómi opnað box fullt af málum sem þarf að skoða miklu, miklu nánar og fara í gegnum þau og athuga hvort þau fái staðist.

Ég skora á alla hv. þingmenn að taka á honum stóra sínum og sjá hvort við séum ekki komin út í fen sem hefur þróast í marga áratugi. Það hafa allir flokkar nema Hreyfingin komið að því að leggja á slík gjöld. Það þurfa allir að taka á því og hætta þessu, því að það er mjög skaðlegt fyrir þjóðfélagið þegar framkvæmdarvaldið er tekið úr höndum framkvæmdarvaldsins sem Alþingi styður og því komið til einstaklinga úti í bæ sem ekki eru kosnir.

Ég hef margoft flutt frumvörp um 2. mgr. 7. gr. laga um starfskjör opinberra starfsmanna. Það er nákvæmlega sama. Þar er skylda að greiða í stéttarfélag viðkomandi starfsmanns, hvort sem hann vill vera í því eða ekki. Gjaldið er ekki ákveðið. Það er ekki sett hámark á það, heldur er það ákveðið á félagsfundi í viðkomandi stéttarfélagi, þess vegna 100% gjald. Það er launaskrifstofan sem innheimtir það um næstu mánaðamót. Sjóðfélaginn hefur ekkert með það að segja hvernig gjaldinu er ráðstafað nema að ganga í viðkomandi félag. Hann er neyddur til þess að ganga í félagið ef hann vill njóta þeirra réttinda sem gjaldið er notað í, eins og t.d. sumarbústaði. Ef hann ætlar að hafa áhrif á upphæð gjaldsins verður hann að ganga í félagið. Það er margt sem dómurinn vekur upp. Hann hefur opnað box Pandóru, svo maður noti nú gríska goðafræði, sem er fullt af hlutum sem við viljum ekki sjá. Að sjálfsögðu ættum við að fara í gegnum allt saman og reyna að laga það.

Ég gleðst yfir því sem fram kemur í breytingartillögunum að lögin verði felld úr gildi. Ég var að sjá það núna. Það eru miklar annir í þinginu, því miður. Maður kemst ekki yfir að lesa allt. Ég biðst velvirðingar á því að hafa ekki séð þetta fyrr en núna. Gjaldið er fellt niður og það er vel. Ég skora á hv. formann nefndarinnar og nefndina alla að fara í lagahreinsun í kjölfar Mannréttindadómstólsins, því að þetta eru raunveruleg mannréttindabrot sem hér eiga sér stað.