139. löggjafarþing — 153. fundur,  11. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[16:53]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Nú erum við komin í umræðu um næsta dagskrármál og ég skal biðjast afsökunar á þeirri orðnotkun sem stafar af því að við erum búin að ræða svo mikið um þetta í þingskapanefndinni undir þessu viðurlaganafni. Auðvitað er það ekki þannig.

Það sem við náðum samkomulagi um og vorum sammála um var að hver ríkisstjórn og hver þingmeirihluti hefur að sjálfsögðu þann rétt að geta lagt fram þau mál sem hann kýs á Alþingi. Við höfum ákveðinn framlagningarfrest sem heimilt er að veita afbrigði frá. Við sjáum að það fer að verða meiri regla en undantekning að framlagningarfresturinn er ekki virtur. Til að koma málum þannig fyrir að þau komi fyrr inn í þingið svo að við höfum meiri tíma og meira ráðrúm til að klára þau þá erum við með tillögu um að mál sem kemur of seint fram þurfi að liggja í fimm daga áður en það verður tekið á dagskrá í 1. umr. (Gripið fram í: Gapastokkurinn er næsta …)