139. löggjafarþing — 153. fundur,  11. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[17:26]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vildi óska þess að ungir menn sem vilja hefja útgerð gætu byrjað í útgerð þannig að þeir gætu fengið nýtingarheimildir og afnotasamninga að hinni sameiginlegu auðlind sem við eigum og borgað fyrir það sanngjarnt leigugjald til eigandans í staðinn fyrir að kaupa veiðiheimildir fyrir milljarða, taka til þess lán og vera skuldsettir upp fyrir haus í 20–30 ár. Þá fyrst getur fjárfesting viðkomandi farið að skila einhverjum arði. Ég vildi óska þess að þetta væri og miðað við tillögur endurskoðunarnefndarinnar heyrist mér sem Sjálfstæðisflokkurinn skrifi upp á þetta. Ég tók eftir því, virðulegi forseti, að í stuttu andsvari í umræðunni staðfesti formaður Sjálfstæðisflokksins að hann stæði við það sem fulltrúi Sjálfstæðisflokksins skrifaði upp á í endurskoðunarnefndinni. Kemur nú fulltrúinn í salinn til að gefa komment um það sem skrifað var upp á. Það er gott.

Virðulegi forseti. Ég get að sjálfsögðu tekið undir að skoðanaskiptin eru um það hversu mikið eigi að vera í þessum samfélagslegu pottum sem mér finnst vera ágætisnafn á þetta kerfi. Það verður deiluefnið, átökin eða skiptu skoðanirnar. (Gripið fram í: Fyrirvararnir …) En ég ætla bara að minna á, virðulegi forseti, að það er fyrir tilverknað Sjálfstæðisflokksins sem til dæmis línuívilnunin var tekin upp. Hún var tekin þannig upp að hún var bara fyrir þá sem beittu í landi en ekki notuð í nútímatækni við beitingu úti á sjó. Það var eins og það hefði átt að taka upp hjólbörur í staðinn fyrir færibönd. Þetta er verk Sjálfstæðisflokksins. Mér finnst dapurlegt að þurfa að fara í andsvar við hv. þingmann um þessi mál núna vegna þess að verkefnið fram undan er að skapa þá sátt sem hægt er að skapa í þjóðfélaginu um framtíðarstjórnkerfi fiskveiða. Það er verkefni á Alþingi og okkar alþingismanna (Forseti hringir.) á næstu mánuðum.