139. löggjafarþing — 153. fundur,  11. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[17:51]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það lá ekkert í mínu máli sem gefur hv. þingmanni tilefni til að álykta sem svo að ég hafi verið að hafna samstarfi eða samstöðu eða slíkri vinnu í þessum efnum. Að sjálfsögðu held ég að allir sanngjarnir menn hljóti að fagna því ef mönnum tækist að verða sem mest samferða í þessu. Eins og ég segi og legg áherslu á er það sem eftir er í mínum huga miklu meira útfærsluatriði en grundvallarstefnumótunin sjálf af því að því verður ekki á móti mælt að það er byggt á þeirri línu sem varð út úr sáttastarfinu, að menn hættu rifrildinu um eignarhald og gengju út frá því að um aðgang að sameiginlegri auðlind væri að ræða og þann aðgang fengju menn þá eftir atvikum í gegnum nýtingarsamninga, afnotasamninga til afmarkaðs tíma og greiddu eðlilegt gjald fyrir.

Hvert er þá viðfangsefnið, til dæmis í því tilviki? Það er að átta sig á því til hve langs tíma þeir samningar eiga að vera eða þurfa að vera og hvernig búa eigi um eftir atvikum framlengingarákvæði en það verður örugglega torsótt að ná sáttum við alla um slíkt. Eftir því sem ég man best voru hugmyndir manna, til dæmis um lengd nýtingarsamninganna, einhvers staðar á bilinu frá 5 árum upp í 65 ár, var það ekki? Þá þarf að finna út úr því hvar, væntanlega þarna á milli, hinn gullni meðalvegur liggur. Hvað er sanngjarnt og/eða vel undirbyggt þegar það er greint hvað þarf til, hvað þarf að vera mikil festa eða mikið öryggi í þessu til að greinin hafi nægjanlega traust starfsskilyrði, geti horft það langt fram í tímann að það sé grundvöllur fjárfestinga og annað í þeim dúr. Það er útfærsluatriði sem að lokum verður að setja niður og væntanlega á hinu háa Alþingi. Það er ekki eitthvað sem þú semur um og nærð fram samstöðu um við alla þegar svo langt bil er á milli hugmynda eins og raun ber vitni.