139. löggjafarþing — 153. fundur,  11. júní 2011.

þingsköp Alþingis.

596. mál
[18:13]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Það fer vel á því að ég hefji mál mitt á því að taka undir þær þakkir sem hv. þm. Árni Þór Sigurðsson lauk sinni ræðu á til samnefndarmanna minna í þessari sérnefnd um þingsköp sem verið hefur að störfum undanfarnar vikur, og ekki síst til formanns nefndarinnar, hv. þm. Þórunnar Sveinbjarnardóttur, sem hefur lánast að stýra þessu starfi farsællega í höfn og lagt sig í framkróka við að lægja öldur sem vissulega komu upp meðan á störfum nefndarinnar stóð. Hún hefur gert það með þeim hætti að allir mega vel við una enda var full samstaða í þessari ágætu nefnd um þá niðurstöðu sem hér liggur fyrir.

Það er auðvitað rétt líka við þetta tækifæri að þakka hæstv. forseta þingsins, Ástu Ragnheiði Jóhannesdóttur, fyrir það undirbúningsstarf sem vinna okkar í þingskapanefndinni byggði á. Hún leiddi undirbúning þessa frumvarps eins og það var lagt fyrir þingið þannig að það er rétt að nýta tækifærið við þessa umræðu til að þakka henni hennar góða undirbúning, sem og öðrum sem að því verki hafa komið, bæði þingmönnum og starfsmönnum Alþingis.

Eins og hv. þm. Árni Þór Sigurðsson gat um er það svo með þingsköp Alþingis að þingmenn flestir hverjir hafa mjög sterkar skoðanir á því hvernig starfsreglur þingsins eiga að vera. Það getur verið vandi að finna samhljóm um einstakar tillögur. Það hefur tekist, auðvitað hafa skoðanir verið skiptar og sú niðurstaða sem hér liggur fyrir er á margan hátt málamiðlun. Hún er málamiðlun ólíkra sjónarmiða, bæði ólíkra einstaklinga og flokka, og þess vegna kann að vera að einstökum þingmönnum finnist sem einstakir liðir mættu vera öðruvísi. Um það er það að segja að þau sjónarmið komu fram í nefndinni, voru reifuð og rök færð með þeim og á móti. Eins og fram kom í máli framsögumanns og formanns nefndarinnar, Þórunnar Sveinbjarnardóttur, er að sjálfsögðu gert ráð fyrir því að einstakir liðir geti komið til endurskoðunar, jafnvel strax á næsta vetri ef ástæða þykir til. Þó að við hljótum að líta svo á að þingsköp eigi ekki að breytast endilega mjög ört er það um leið þannig að við viðurkennum að það verk sem við erum að ljúka er ekki endilega fullkomið eða hafið yfir gagnrýni. Leiði reynslan í ljós að einhverjar aðrar leiðir séu líklegar til árangurs hljótum við að fallast á það.

Ég geri ráð fyrir því að hv. þingmenn þekki vel efni hins upphaflega frumvarps sem hér var kynnt og rætt við 1. umr., raunar eftir töluverða kynningu á vettvangi þingflokka. Ég ætla að nefna örfá atriði um breytingarnar sem þingskapanefndin leggur til. Þar er að finna töluvert róttæka breytingu sem lýtur að samkomudegi Alþingis. Þess er getið í stjórnarskrá að hann skuli vera 1. október en þess jafnframt getið að því megi breyta með lögum. Það er það sem við erum að leggja til að verði gert, við erum að tala um að færa upphaf þings frá 1. október fram til annars þriðjudags í september og þá leiðir af sjálfu að septemberstubburinn sem verið hefur í þingsköpum frá 2007 fellur niður. Það leiðir til þess að starfsáætlun þingsins verður með öðrum hætti í heild en verið hefur að minnsta kosti síðustu fjögur árin.

Það er líka töluverð breyting sem ég reikna með að eigi eftir að hafa veruleg áhrif á fjárlagagerðina sem getið er um og varðar það að fjármálaráðherra skuli leggja fram tillögu til þingsályktunar fyrir 1. apríl um rammana vegna fjárlagagerðarinnar. Það held ég að tengist breytingum sem ræddar hafa verið á vettvangi fjárlaganefndar um breytt vinnulag. Ég bind vonir við að þetta geri það að verkum að þingið komi fyrr að fjárlagaundirbúningnum en verið hefur og að fjárlagaumræðan og fjárlagagerðin verði meiri á vettvangi þingsins og leiði jafnframt til betri og vandaðri niðurstöðu.

Ég ætla ekki að fjalla sérstaklega um nefndaskipanina. Í henni felast róttækar breytingar. Í tillögunni sem upphaflega lá fyrir þinginu var gert ráð fyrir róttækum breytingum. Þegar horft er á tillöguna í heild má segja að þær breytingar sem nefndin leggur til séu óverulegar. Eins og getið hefur verið um snerta þær fyrst og fremst verksvið skattamála og þá um leið stofnun sérstakrar efnahags- og viðskiptanefndar sem raskar heildarhugmyndinni eins og hún var lögð fram í upphafi. Hið sama er að segja um ákveðið orðalag sem snertir auðlindamál. Það mál fékk töluvert mikla umræðu í þingskapanefndinni en niðurstaðan held ég að sé vel ásættanleg. Þess er sérstaklega getið að þau atriði sem varða verkaskiptingu nefnda komi til sérstakrar endurskoðunar innan árs frá gildistöku laganna. Þarna er um að ræða áhugaverða tilraun og verður gaman að sjá hvernig hún reynist.

Þarna eru líka breytingar sem hv. þm. Þórunn Sveinbjarnardóttir gerði grein fyrir um framlagningu lagafrumvarpa og hér er sett inn regla sem á að gera það að verkum að það verður aukinn hvati fyrir einkum ráðherra og meiri hluta á þingi hverju sinni að leggja mál inn fyrir 1. apríl. (Gripið fram í: Samþykkt viðurlög.) Hér hafa verið nefnd viðurlög. Eins og fram kom í andsvörum hv. þm. Ragnheiðar E. Árnadóttur og hæstv. utanríkisráðherra áðan var orðið viðurlög eiginlega vinnuheiti í störfum nefndarinnar. Ekki var hugmyndin að beita eiginlegum viðurlögum eða refsingum (Gripið fram í.) en hins vegar er þarna búinn til ákveðinn þröskuldur eða sérstök málsmeðferð vegna mála sem koma inn (Gripið fram í.) eftir 1. apríl. Það verður gaman að sjá hvort þetta leiði til þess að tímafresturinn sem hér er um að ræða verði betur virtur en verið hefur til þessa. Ég held að það sé það sem við í nefndinni vorum sammála um að reyna, að finna leið til að auka þrýstinginn á ráðuneyti og stjórnarmeirihluta til að virða þennan tímafrest. Það verður gaman að sjá hvernig til tekst með það.

Ég ætla, hæstv. forseti, ekki að lengja þessa umræðu með því að fara í aðra þætti. Hv. formaður nefndarinnar hefur getið um þá. Ég hygg að þingmenn muni átta sig á því þegar við förum að framfylgja þessum reglum að hér er um töluvert róttækar breytingar að ræða. Þær eru viðamiklar en eins og alltaf er mikilvægt að hafa í huga þá er eitt að breyta reglunum og annað að tryggja að þeim sé fylgt eftir í framkvæmd. Það verður gaman að sjá hvernig reglurnar reynast en um leið er mikilvægt að við sem hér erum leggjum okkur fram um að ná þeim markmiðum sem lagt er upp með í þessum breytingum. Það er hægt að misnota eða fara illa með reglur sem jafnvel eru góðar ef menn hafa einbeittan vilja í þá veru og gildir þá einu hvort um er að ræða stjórn eða stjórnarandstöðu á þingi. Við erum að gera tilraun til að bæta störfin á Alþingi frá því sem verið hefur en svo er undir okkur komið hvernig til tekst. Það ríður á að við séum meðvituð um það í framtíðinni að ná raunverulega þeim ávinningi sem þessar breytingar eiga að hafa í för með sér.