139. löggjafarþing — 153. fundur,  11. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[19:00]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Nú greiðum við atkvæði um hugmynd hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um að ráðstafa veiðigjaldi með tilteknum hætti. Frumvarpinu fylgdi álit einnar af undirskrifstofum hæstv. fjármálaráðherra, fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins, þar sem á það var bent að aðferðin sem verið væri að leggja til kynni að stangast á við stjórnarskrá Íslands. Það var auðvitað einboðið að þessi grein gat ekki staðið svo og ríkisstjórnin var gerð afturreka með málið. Það þurfti tvær atrennur af hálfu hæstv. meiri hluta sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar að gera þessar breytingar og niðurstaðan er sú sem við sjáum hér.

Það er auðvitað með ólíkindum að mál sem er sérstakt hjartans mál hæstv. ríkisstjórnar, sérstakt baráttumál hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, skuli vera niðurlægt með þessum hætti í þingsölum. Þetta er staðan. Ég fagna því.