145. löggjafarþing — 154. fundur,  20. sept. 2016.

störf þingsins.

[14:13]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Forseti. Komandi kosningar munu snúast um sérhagsmuni gegn almannahagsmunum, sagði einn þátttakandi í annars kostulegum útvarpsþætti á laugardaginn var. Mikið er ég sammála því. Sérhagsmunagæsla á Íslandi er einhvern veginn mun augljósari núna en svo oft áður enda leggja stjórnvöld áherslu á að standa vörð um hlutina og kerfið eins og það er í stað þess að reyna að breyta því og bæta það. Formaður Sjálfstæðisflokksins lýsti því beinlínis yfir fyrir nokkru að hann og flokkurinn hans væri á móti kerfisbreytingum. En ef við breytum ekki kerfinu verða sérhagsmunir áfram í forgrunni og almannahagsmunir verða afgangsstærð.

Við þurfum að breyta fiskveiðistjórnarkerfinu, ekki til að setja glæsileg sjávarútvegsfyrirtæki á hausinn heldur til þess að þau greiði eðlilegt verð fyrir aðganginn að auðlindinni og opna leið fyrir þau sem vilja koma ný inn í þessa undirstöðuatvinnugrein. Auðlindarentan á að renna til þjóðarinnar en ekki í vasa útgerðarmanna.

Við þurfum að breyta samningum og greiðslum til bænda, ekki til að eyða byggð í landinu heldur til að efla samkeppni, ekki síst í mjólkuriðnaðinum. Við eigum ekki að láta freka karla ráða því hvernig við styrkjum þennan mikilvæga þátt í byggð landsins.

Við þurfum að breyta heilbrigðiskerfinu, skrúfa fyrir sjálfvirka peningakrana til sérfræðilækna og leyfa sjúkrahúsum að flytja beint inn lyf og lækka þannig lyfjakostnað.

Vernd sérhagsmunanna veldur því að laun eru lág, matur er dýr, velferðarkerfið drabbast niður. Ungt fólk kýs að búa annars staðar og til að breyta því, til að unga fólkið komi heim, launin verði hærri, maturinn ódýrari og velferðarkerfið betra þarf allsherjarkerfisbreytingu.