145. löggjafarþing — 154. fundur,  20. sept. 2016.

höfundalög.

870. mál
[20:42]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Fyrst hvað varðar fordæmi frá Spáni. Ég vil benda hv. þingmanni á að á bls. 12 segir, með leyfi virðulegs forseta:

„Dómurinn benti á að ekkert í tilskipuninni útilokaði í sjálfu sér að sanngjarnar bætur væru fjármagnaðar með framlagi í fjárlögum í stað þess að innheimta bætur í formi höfundaréttargjalda.“

Það liggur fyrir. En síðan segir:

„Á hinn bóginn væri það á endanum einstaklingum sem gerðu eintök af vernduðum verkum án fyrir fram fenginnar heimildar viðkomandi rétthafa og þeim sem þannig yllu rétthöfum tjóni sem væri skylt að bæta tjónið með fjármögnun sanngjarnra bóta. Þessu væri ekki fyrir að fara í því fyrirkomulagi sem komið hefði verið upp á Spáni …“

Þetta er að nokkru það fyrirkomulag sem sett var þar. Það er ekki almennt tekið fyrir það að ríkissjóður greiði bæturnar. En það fyrirkomulag sem var sett upp á Spáni, og hér stendur reyndar „og víðar“, gekk ekki. Það sem deilan þar stóð um var að rétthafar höfundaréttar sögðu: Sú upphæð sem er sett inn í sjóðinn er ekki málefnaleg, er ekki rökstudd og er allt of lág. Þar rís deila. Niðurstaðan var sú sem hér lýsir. Slíkar deilur hafa ekki komið upp að því er ég veit t.d. á þeim stöðum þar sem hafa verið teknar upp þessar sjóðsleiðir, sem eru nokkrar. Ég tel að með því fyrirkomulagi sem við erum að setja hérna sem hefur öll einkenni gjaldtöku, þ.e. við skilgreinum tollflokkana, skilgreinum gjaldið sem mundi falla á þar, en í staðinn fyrir að leggja gjaldið á borgum við jafngildi úr ríkissjóði, sé kominn málefnalegur rökstuðningur fyrir gjaldinu og það þarf lagabreytingu til þess að horfið verði frá því fyrirkomulagi. Þar með tel ég að við endurspeglum öll einkenni gjaldsins en í staðinn fyrir lokaskrefið, að leggja það á, er það borgað úr ríkissjóði.

Þá er rétt að hafa í huga að það er ekki hægt að fullnægja því skilyrði að einungis þeir sem afrita höfundaréttarvarið efni, borgi. Það er bara ekki hægt, jafnvel þótt menn færu gjaldtökuleiðina, vegna þess að þeir féllu alltaf þar undir sem væru með þessi tæki (Forseti hringir.) og væru bara með eigið efni í afritun. Sú hugsun sem hér er um að ræða snýr nákvæmlega að því fyrirkomulagi sem við lýsum varðandi Spán.