145. löggjafarþing — 154. fundur,  20. sept. 2016.

höfundalög.

870. mál
[20:45]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Rökstuðningur hæstv. ráðherra, svo ég skilji þetta, því að kannski má segja að hæstv. ráðherra hafi verið byrjaður í málsvörninni áðan þegar ég fór í andsvar við hann, er sá að þó að þessi leið tryggi í raun og veru ekki að þeir sem valda rétthöfum tjóni greiði fyrir það sanngjarnar bætur þá tryggi hin leiðin það ekki heldur. Við getum ekki tryggt að þeir sem kaupa þessi tæki og tól séu endilega að nýta þau til að afrita eigið efni þannig að rökstuðningur hæstv. ráðherra er í raun og veru þessi: Við erum ekki að láta þá sem valda rétthöfum tjóni greiða þetta en það mundum við heldur ekki gera með hinni leiðinni. Ég sé hæstv. ráðherra kinka kolli. En það er mjög mikilvægt samt að fá þetta prinsipp á hreint (Menntmrh.: Hvað þennan þátt varðar.) hvað þennan þáttinn varðar. Hæstv. ráðherra getur þá kannski útskýrt það því út frá greinargerðinni er mjög erfitt að lesa annað, eins og hæstv. ráðherra las sjálfur upp hér áðan:

„Dómurinn benti á að ekkert í tilskipuninni útilokaði í sjálfu sér að sanngjarnar bætur væru fjármagnaðar með framlagi í fjárlögum í stað þess að innheimta bætur í formi höfundaréttargjalda. Á hinn bóginn væri það á endanum einstaklingum sem gerðu eintök af vernduðum verkum án fyrir fram fenginnar heimildar viðkomandi rétthafa og þeim sem þannig yllu rétthöfum tjóni sem væri skylt að bæta tjónið með fjármögnun sanngjarnra bóta.“

Það sem mér finnst hæstv. ráðherra vera að segja er: Hvorug leiðin nær að uppfylla það sem dómurinn segir að sé lykilatriði. Þá spyr ég: Dugir þetta til? Hæstv. ráðherra sagði í sínu svari: Þetta hefur dugað til í hinum löndunum, sem ég nefndi af því að þau miða við þessar tilteknu formúleringar. En það er mjög mikilvægt að við höfum þetta á hreinu í þinginu, a.m.k. áður en afgreiðsla þessa máls liggur fyrir. En ég minni líka á fyrri spurningar um fjármögnunina og tengsl við ríkisfjármálaáætlun og að fá staðfest að þetta sé ekki hluti af því fé sem á að fara til menningarmála samkvæmt þeirri sömu áætlun.