145. löggjafarþing — 154. fundur,  20. sept. 2016.

ákvarðanir EES-nefndarinnar um breytingu á IX. viðauka við EES-samninginn.

681. mál
[21:35]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta utanrmn. (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil bara segja það án þess að lengja þessa umræðu að að einhverju leyti hefur mér fundist umræðan um framsalsákvæði í stjórnarskrá fara að snúast um að þar með sé verið að fórna fullveldi þjóðarinnar. Sú umræða er byggð á kolröngum forsendum. Nærtækasta dæmið er nágrannaþjóð okkar Noregur, sem er ekki aðili að Evrópusambandinu, en Norðmenn eru með þetta skýra ákvæði í stjórnarskrá sinni og telja ástæðu til þess að taka raunverulega umræðu, bæði á Stórþinginu og í fjölmiðlum og í almennri opinberri umræðu um hvort of langt sé gengið í því meiri háttar framsali sem þeir telja að átt hafi sér stað við innleiðingu þessa fjármálaeftirlits, þessarar tveggja stoða lausnar, á meðan íslenska leiðin er sú að segja: Hér er í raun og veru ekki um neitt slíkt að ræða. Þess á milli segjum við: Í raun og veru erum við ekki að framselja neitt vald. Þá tala fulltrúar margra flokka um að það sé hins vegar mjög nauðsynlegt að fá framsalsákvæði í stjórnarskrá til þess að skýra þessi mál.

Ég er kannski búin að vera hérna allt of lengi, síðan 2007, en mér er farið að finnast þessi málflutningur ansi óþægilegur, að við komumst alltaf að þeirri niðurstöðu að það sé ekki of langt gengið, en þess á milli segjum við: En samt verðum við að fara að fá ákvæði í stjórnarskrá til að skýra þessi mál.

Ég held að þarna sé búið að tengja þetta mál öðrum málum, fullveldinu, tilfinningaböndum, sem ekki eiga við rök að styðjast. Við tókum ágæta umræðu um það á landsfundi minnar hreyfingar 2015. Það var niðurstaða þess landsfundar að mæla með því að slíkt ákvæði færi inn í stjórnarskrá, einmitt út frá þeim rökum að okkur finnst mikilvægt að stjórnarskráin tali skýrt um þetta efni og Alþingi fái skýrar leiðbeiningar úr henni um hvernig fara eigi að með svo vandmeðfarin mál.