138. löggjafarþing — 155. fundur,  9. sept. 2010.

Stjórnarráð Íslands.

658. mál
[16:01]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Birgi Ármannssyni fyrir ágæta yfirferð á þessu frumvarpi. Það er að mestu leyti rétt sem hann segir, það er ekki vandað til undirbúnings við það. Ég vek hins vegar athygli á því að fyrr í dag greiddi þingsalur, og þar með hv. þingmaður, atkvæði um frumvarp um fjármagn til stjórnmálaflokka sem var hálfu verr unnið en þetta. Þar er 1. gr. frumvarpsins í algerri andstöðu við afganginn af því sem er í frumvarpinu og er hin mesta hrákasmíð þannig að það hefði verið gaman að heyra næstum því þessa sömu ræðu hv. þingmanns við það frumvarp líka því að hún hefði átt vel við.

Ég tek til máls um þetta frumvarp vegna ummæla stjórnarliða úr Samfylkingu sem hélt því fram að stjórnarandstaðan hafi ekki lagt neinar efnislegar breytingar til málanna heldur verið með málþóf. Ég náði ekki að bregðast við þeim ummælum í 2. umr. vegna þess að ég þurfti annað á fund en ég geri það hér og nú.

Þó að Hreyfingin skilgreini sig ekki sjálf sem stjórnarandstöðu virðist mér sem aðrir flokkar á þingi geti ekki hugsað öðruvísi um stjórnmál en sem einhvers konar „með eða móti“ fyrirbæri þegar kemur að ríkisstjórnum. Í því ljósi tekur Hreyfingin ummæli þingmannsins til sín og vill koma á framfæri að Hreyfingin styður ekki þetta frumvarp af efnislegum ástæðum og telur það í raun hvorki fugl né fisk þar sem ekki er gengið nægilega langt í endurskipulagningu Stjórnarráðsins. Hreyfingin telur að Stjórnarráðið og stjórnsýslan þarfnist gagngerrar endurskipulagningar, að fá þurfi hóp sérfræðinga utan ráðuneytanna og hugsanlega utan Íslands til að búa til nýja stjórnsýslu fyrir Ísland þar sem t.d. er skilgreint fyrir fram hvaða hlutverkum stjórnsýsla í 330 þúsund manna landi á að sinna og hvernig hún á að sinna þeim. Síðan þarf að færa þá stjórnsýslu sem nú er til staðar inn í það umhverfi en þó ekki nema endurráðið sé í þrjú efstu lögin, þ.e. stöðu ráðuneytisstjóra, skrifstofustjóra og deildarstjóra, og þá eingöngu út frá faglegum forsendum. Tryggja þarf líka að stjórnsýslan og það fólk sem ræðst þar til starfa sé þar á forsendum almannahagsmuna en ekki á forsendum flokkshagsmuna eða annars konar hagsmuna. Ég leyfi mér að benda á að fyrir ekki ýkjamörgum árum var aflétt, en þó aðeins að hluta til, ströngum ákvæðum við tengslum starfsmanna bandaríska ríkisins við stjórnmálaflokka þar sem hefur að hluta til ríkt bann við afskiptum eða þátttöku ákveðinna starfsmanna stjórnsýslunnar af stjórnmálum og í stjórnmálaflokkum.

Ekki mæli ég endilega með að Íslendingar gangi svo langt en vert er að hafa í huga að stjórnsýsla ríkisins verður að njóta óskoraðs trausts almennings, ráðherra og Alþingis og má ekki vera pólitísk. Nær væri þó að gera ráð fyrir því að hver og einn ráðherra geti haft með sér aðstoðarmenn, einn eða fleiri, til að fylgja eftir þeim pólitískum áherslum sem nýr ráðherra kemur með inn í ráðuneytið og til að koma í veg fyrir að ráðherrann geti gert ráðuneytið eða hluta þess að pólitískum anga flokks síns. Þetta eru gríðarlega mikilvæg atriði og frumvarpið sem hér er verið að ræða er einhvers konar yfirklór yfir þau atriði sem eru til mikilla vansa hér á landi.

Vissulega ber að fagna fækkun ráðuneyta og ráðherra og þetta frumvarp gerir það. Þeir sem nú hafa valist til forustu í þessum nýju ráðuneytum eru alls trausts verðir. En það er ekki nóg, stjórnsýslan öll þarfnast endurskipulagningar við.