138. löggjafarþing — 155. fundur,  9. sept. 2010.

Stjórnarráð Íslands.

658. mál
[16:05]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Við höfum tekið afskaplega skamma stund í að ræða þetta stóra mál og hv. þm. Þór Saari fór yfir ýmislegt sem væri eðlilegt að ræða í tengslum við breytingar eins og þessar. Ég verð að viðurkenna, virðulegi forseti, að eftir að hafa heyrt andsvar hv. þm. Þuríðar Backman að einhver gögn liggi til grundvallar þessu máli, tel ég eðlilegt — og ég veit að hv. þm. Þuríður Backman mun koma í ræðustól á eftir — að þessi gögn verði sett upp á borðið. Við báðum um það, þingmenn Sjálfstæðisflokksins í hv. heilbrigðisnefnd og hv. félags- og tryggingamálanefnd, að fá þau gögn sem liggja til grundvallar málinu en við fengum þau ekki. Ef þessi gögn eru til staðar fer ég fram á að séð verði til þess að við fáum þau. Það er annars ekkert sem liggur til grundvallar málinu nema þetta frumvarp sem er óburðugt. Síðan er t.d. hægt að finna skýrslu vinnuhóps sem hæstv. forsætisráðherra skipaði þvert á vinnu þingmannanefndar sem er að skoða ýmislegt og ætlar koma með tillögur í stjórnsýslunni. Áður en þingmannanefndin hefur klárað hefur þessi vinnuhópur, sem er prívathópur trúnaðarmanna forsætisráðherra, lokið störfum og það er kannski það sem menn hafa helst vitnað í, hópinn sem dr. Gunnar Helgi Kristinsson hefur stýrt. Ég ætla að lesa upp úr niðurstöðu þessa hóps en þar segir, með leyfi forseta, á bls. 6:

„Á þeim stutta tíma, sem starfshópur forsætisráðherra hafði til umráða, hafði hann ekki tök á að vinna ítarlega útfærðar tillögur. Þess í stað hefur áhersla hans verið sú að leiða í ljós meginatriði sem af skýrslu rannsóknarnefndar má leiða og helstu viðfangsefni sem stjórnvöld þurfa að takast á við í ljósi ábendinga rannsóknarnefndar. Ítarlegri vinna með efnið bíður því fleiri aðila. Hér ber fyrst að nefna níu manna þingmannanefnd sem skipuð hefur verið af Alþingi til að móta tillögur að viðbrögðum Alþingis við niðurstöðum rannsóknarnefndarinnar. Alþingi er verkbeiðandi í tilviki rannsóknarnefndarinnar og eðlilegt að meginábyrgðin á því hvernig brugðist sé við skýrslunni sé í höndum þess. Auk þingmannanefndarinnar þurfa ráðuneytin, hvert fyrir sig, að bregðast við skýrslu rannsóknarnefndarinnar og þeim álitamálum sem fylgt hafa í kjölfar hennar.“

Virðulegi forseti. Hér segir prívathópur hæstv. forsætisráðherra að hann hafi ekki haft neinn tíma til að skoða þessi mál og að sé eðlilegt að bíða eftir meiri hluta þingmannanefndar, sem meiri hlutinn ætlar ekki að gera. Nú hefur verið sagt að kallað hafi verið eftir fækkun ráðuneyta í starfshópi hæstv. forsætisráðherra. Hvað segir um það á bls. 25, með leyfi forseta, um stærð ráðuneyta?:

„Þrátt fyrir umtalsverða fjölgun starfsmanna ráðuneyta á síðustu áratugum er hluti þeirra enn of fámennur. Þeir veikleikar í stjórnsýslu ríkisins, sem dregnir eru fram í skýrslu rannsóknarnefndar, staðfesta þær ábendingar sem áður hafa komið fram að geta þessara fámennu ráðuneyta til að takast á við aukin og flóknari stjórnsýsluviðfangsefni, svo sem vegna alþjóðasamninga, sé takmörkuð. Auk þess hefur verið bent á að þessi fámennu ráðuneyti skorti nauðsynlega formfestu sem líklegra sé að finna hjá stærri skipulagsheildum. Færa má rök fyrir því að ráðuneyti þurfi að vera af ákveðinni lágmarksstærð …“

Síðan er farið áfram yfir það.

Virðulegi forseti. Uppfyllir meiri hlutinn sem ætlar að keyra þetta mál í gegn það? Nei, meiri hlutinn gerir það ekki. Það er augljóst að meiri hlutinn hefur ekki lesið þessa skýrslu ef þetta er gagnið sem meiri hlutinn er fyrst og fremst að vísa til.

Á bls. 37, í kaflanum Stjórnmál, stefnumótun og undirbúningur löggjafar, segir, með leyfi forseta:

„Í nálægum ríkjum er vönduð úttekt oftast undanfari meiri háttar opinberrar stefnumótunar …“

Síðan er farið yfir það að ræða þurfi að mismunandi valkostum sé stillt upp og að áhrif þeirra séu vegin og metin. Svo er gagnrýnt að þannig hafi ekki verið unnið. Hér halda menn, meiri hlutinn, áfram og finnst það allt saman mjög léttúðugt að vinna með nákvæmlega þessum sama hætti sem gerir það að verkum að í hvert skipti sem þeir tala um vönduð vinnubrögð eru það fyrst og fremst orð en ekki neitt á bak við þau.

Síðan eru ýmsar hugmyndir frá hópnum, prívathópi hæstv. forsætisráðherra, og þar segir á bls. 54:

„Í öðru lagi er lagt til að unnið verði mat um mannaflaþörf Stjórnarráðs Íslands þar sem tekið verði mið af verkefnum, framtíðarþróun og starfsumhverfi þess. Telja má að slík áætlun sé í reynd nauðsynlegt tæki fyrir stefnumótun í starfsmannamálum Stjórnarráðsins.“

Farið er yfir aðra þætti sem ég hef ekki tækifæri að lesa upp í þessari stuttu ræðu en ég vil samt sem áður vísa í niðurstöður starfshópsins. Þar er sérstaklega nefnt að mikilvægt sé að vinna mál með þeim hætti, með því að vera með samstöðuskapandi stjórnmál. Það hefur eitthvað með það að gera að við eigum að ná samstöðu um mikilvæg mál og fara vel yfir þau. Hér er ekki um að ræða eitthvert áróðursplagg okkar sjálfstæðismanna eða stjórnarandstöðunnar. Nei, virðulegi forseti. Hér lesum við beint upp úr niðurstöðum prívathóps hæstv. forsætisráðherra, sem var að vísu settur þvert á allt sem lagt var upp með þegar menn ákváðu að vinna út úr niðurstöðum bankahrunsins, ef þannig má að orði komast. Við settum upp þingmannanefnd sem átti að hafa forgöngu um þá vinnu. Af hverju? Vegna þess að við vildum styrkja stöðu þingsins og töldum eðlilegt að þingið en ekki framkvæmdarvaldið mundi vinna úr þessum stóru málum. Hæstv. forsætisráðherra fór þvert á þá hugsun og setti hóp sinn af stað og hér er verið að vísa í að sá hópur sé eitthvert grunngagn að þessum breytingum. Ef menn lesa niðurstöðu prívathóps hæstv. forsætisráðherra finna þeir ekki neina stoð fyrir þessum breytingum.

Að ganga frá þessu máli eins og menn ætla að gera hér segir okkur að meiri hlutinn og ríkisstjórnin, norræna velferðarstjórnin, meina ekkert með því þegar þau segja að styrkja eigi stöðu þingsins og vinna eigi faglegar og betur að málum en gert hefur verið. Það er kaldhæðnislegt vegna þess að hér lögðu menn upp með að hafa ríkisstjórn sem átti að vera norræn velferðarstjórn, ríkisstjórn sem átti að hugsa um vinnubrögð og verkstjórn og hvað þetta heitir allt saman. Norræn velferðarstjórn var nafnið sem menn gáfu eigin ríkisstjórn og síðan komum við með frumvarp þar sem lagt er upp með sameiningu nokkurra ráðuneyta og öll orkan — ekki hjá þingmönnum, því að þeir hafa minnst komið að þessu, heldur innan stjórnarliðsins — hefur fyrst og fremst farið í atvinnuvegaráðuneytið og umhverfis- og auðlindaráðuneytið. Þá var frumvarpið sent til umsagnar aðila sem tengjast því og ég held að það hafi verið skynsamleg og eðlileg vinnubrögð. Þar voru t.d. bændur og útvegsmenn og ég hef áður nefnt löggilta endurskoðendur. Ég veit ekki alveg hver tengingin er þar en ég held að það sé betra að þeir segi álit sitt á málum ef þeir hafa áhuga á því en norræna velferðarstjórnin sleppi því að leyfa heilbrigðisstéttunum, sjúklingasamtökum, þeim sem þurfa að eiga samskipti við félags- og tryggingamálaráðuneytið, að koma að borðinu og segja álit sitt.

Hv. þm. Þuríður Backman, formaður heilbrigðisnefndar, kom hér áðan og sagði að í forsætisráðuneytinu lægju fyrir gögn sem undirbyggju þessa breytingu. Við fórum fram á það með skriflegum spurningum bæði í hv. heilbrigðisnefnd og félags- og tryggingamálanefnd að fá þau gögn sem liggja til grundvallar til að ná þeirri hagræðingu sem menn ætla að ná fram með þessum breytingum. Við því var ekki orðið. Og þó að allar líkur séu á því að frumvarpið verði að lögum eftir tiltölulega fáar mínútur fer ég fram á að við fáum þessi gögn. Um leið lýsi ég furðu minni á því að það var ekki gert þegar menn unnu þessi mál.

Tekinn hefur verið nokkurn veginn helmingur af því frumvarpi sem við ræðum hér, ef ég man rétt. Það átti að stofna innanríkisráðuneyti og velferðarráðuneyti og menn halda sig við þá skipan, og sömuleiðis atvinnuvegaráðuneyti og umhverfis- og auðlindaráðuneyti. Það er kaldhæðnislegt að norræna velferðarstjórnin hafi tekið allan sinn tíma í innanflokksátök og karpa um þau ráðuneyti sem menn hafa ákveðið að leggja til hliðar en ekki hleypt neinum að borðinu til að ræða hin ráðuneytin sem síst eru minna mikilvæg. Það sýnir í rauninni hvernig þessi ríkisstjórn og stjórnarmeirihlutinn vinna. Hér eru menn fyrst og fremst með fagurgala sem menn hjúpa faglegri slikju með því að ýmsir aðilar sem eru hápólitískir þrátt fyrir að þeir hafi bakgrunn á ýmsum sviðum, leggja blessun sína yfir hin og þessi störf ríkisstjórnarinnar. En þegar menn kíkja aðeins undir yfirborðið sjá þeir að vinnubrögðin standast eiginlega aldrei þá skoðun að vera fagleg og vönduð.

Það segir sig kannski ef við skoðum þá litlu umræðu sem hér var um þetta stóra mál og er augljóslega í skugga annarra mála, fulltrúar meiri hlutans höfðu ekki framsýni til að koma með neina skýringu á því af hverju málið var ekki sent til umsagnar þeirra aðila á velferðarsviðinu sem sannarlega hefðu þurft að veita álit sitt á því. Að vísu kom einn stjórnarliði og upplýsti um, þó að hv. þingmaður hafi ekki ætlað sér það, að hann væri ekki með á hreinu um hvaða aðila væri að ræða og taldi að það hefði verið gert. Hann upplýsti þar af leiðandi um mistök sem menn hafa hins vegar ekki reynt að leiðrétta. Í frumvarpinu er ekki bara lýst fyrirætlunum stjórnarmeirihlutans um samráð sem hefur verið svikið heldur er sömuleiðis farið yfir margar fyrirætlanir um alls kyns samninga og hagræðingar og það er hvergi að sjá að slík vinna hafi farið fram. Þingmenn hafa ekki verið upplýstir um slíkt. Virðulegi forseti. Ég bið hv. þm. Þuríði Backman að tala skýrt hér á eftir og segja okkur hvort þessi gögn eru til. Ef þau eru til fer ég fram á (Forseti hringir.) að okkur þingmönnum verði gefinn kostur á að sjá þau.