145. löggjafarþing — 155. fundur,  22. sept. 2016.

Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins.

873. mál
[17:22]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Þá spyr ég hv. þingmann um skoðun hans á eftirfarandi: Telur hann að einhverjar líkur séu til þess þegar svona víðtækt samkomulag hefur tekist að það mundi ónýtast eða spillast, jafnvel þó að það biði þrjá, fjóra, fimm mánuði eða tæki þann tíma sem þyrfti til eðlilegrar meðgöngu svona stórs máls? Telur hann að það mundi leiða til þess að málið næði ekki framgangi, jafnvel þó að skipti yrðu á ríkisstjórn? Ég tel ekki, allt ekki. Ég tel meira að segja að svona stórmál batni oft við það að vera undir fleiri en einni ríkisstjórn. Ég hefði gaman af að heyra álit hv. þingmanns á því.

Spurningin sem mig langaði helst til að flytja er þessi: Hvernig sér hv. þingmaður afleiðingarnar af samspili þessara breytinga annars vegar og hins vegar því að hækka lífeyrisaldurinn um tvö ár? Hvað þýðir það gagnvart framtíðinni? Er það rétt hjá mér að það kynni að leiða til þess að kynslóðir framtíðarinnar mundu bera hlutfallslega minna úr býtum í gegnum réttindin sem þær ávinna sér en við eða jafningjar okkar, jafnaldrar okkar sem eru í kerfunum eins og þau eru núna?