138. löggjafarþing — 155. fundur,  9. sept. 2010.

stjórnlagaþing.

703. mál
[15:07]
Horfa

Flm. (Róbert Marshall) (Sf):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 90/2010, um stjórnlagaþing. Hér eru á ferðinni mjög tæknilegar breytingar á lögum sem við samþykktum sl. vor. Komið hefur í ljós eftir að undirbúningur að kjöri til stjórnlagaþings hófst að framkvæmd laganna eins og hún hafði upphaflega verið undirbúin er svo flókin að við það verður ekki unað. Okkar helstu sérfræðingar í framkvæmd kosninga hafa komið fram með mjög þarfar og góðar ábendingar sem við í allsherjarnefnd, alla vega stjórnlagaþingsmeirihlutinn þar, höfum ákveðið að taka til greina og gera breytingar til að það megi verða til þess að kosningarnar verði skýrar og einfaldar. Þær breytingar sem þetta snýst fyrst og fremst um lúta að stærð kjörseðilsins en komið hefur í ljós að ef frambjóðendur verða fleiri en 115 verður mjög erfitt að útbúa kjörseðilinn þannig að hann verði skýr og aðgengilegur fyrir alla kjósendur, þ.e. letrið þarf að vera svo smátt og kjörseðillinn svo stór að það er nánast ómögulegt að framkvæma slíkt. Það má eiginlega segja að kjörseðillinn verði á stærð við verðlaunaávísanir í þekktum hjólreiðakeppnum. Það er ekki hægt að hafa það þannig. Það flækir líka mjög talninguna. Hér er lögð til mjög einföld breyting á þessu sem á að verða til þess að bæta framkvæmd kosninganna. Það verður þá þannig að hver frambjóðandi til stjórnlagaþings fær úthlutað ákveðnu númeri. Hver kjósandi fer síðan inn í kjörklefann, sér þar lista yfir frambjóðendur auk númeranna sem tengd eru við hvern frambjóðanda fyrir sig og fyllir út kjörseðil sinn með 25 númerum sem heyra til þeirra frambjóðenda sem kjósendur vilja velja á stjórnlagaþingið.

Ég ætla ekki að lesa upp allt frumvarpið. Það er mjög tæknilegt, en við teljum að með þessu komum við til móts við ráðleggingar sérfræðinga okkar í þessum efnum og leggjum til að frumvarpið verði samþykkt á þessu þingi svo fljótt sem auðið er svo hægt verði að hefja undirbúning að stjórnlagaþingi sem vakið hefur mikið umtal og athygli. Ef marka má umfjöllun fjölmiðla er mikill spenningur fyrir þeirri framkvæmd.