139. löggjafarþing — 155. fundur,  15. júní 2011.

prófessorsstaða tengd nafni Jóns Sigurðssonar forseta.

891. mál
[11:17]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Frú forseti. Góðir landsmenn. Í dag er stigið merkilegt skref í sögu háskólastarfs á Íslandi þegar í fyrsta skipti er stofnað prófessorsembætti sem hefur meginstarfsskyldur við rannsóknasetur á landsbyggðinni, þ.e. rannsóknasetur Háskólans á Vestfjörðum og aðra háskólastarfsemi á því svæði. Háskóli Íslands hefur á undanförnum 10–15 árum byggt upp net rannsóknasetra á landsbyggðinni og eru þau nú sjö talsins á níu stöðum víðs vegar um landið: Í Bolungarvík og á Patreksfirði, á Hornafirði, Húsavík, Stykkishólmi, Selfossi, Gunnarsholti, Skagaströnd og í Sandgerði. Sú uppbygging ber vitni um mikla framsýni af hálfu Háskóla Íslands og skilning á því að rannsóknir og fræðastarf eru nauðsynlegur þáttur í atvinnu- og menningarlífi alls staðar á landinu og má ekki vera bundið við örfáa staði.

Sú ákvörðun Alþingis að prófessor í stöðu tengdri nafni Jóns Sigurðssonar skuli hafa meginstarfsskyldur á Vestfjörðum mun verða mikil lyftistöng öðru rannsókna- og fræðastarfi þar. Má þar nefna starfsemi minningasafns Jóns Sigurðssonar á Hrafnseyri og sumarháskóla sem haldinn er þar árlega. Auk þess verður staðan styrkur almennt fyrir sagnfræði og stjórnmálafræðirannsóknir á Vestfjörðum en þar eru nú unnin ýmis hug- og félagsvísindaverkefni, svo sem rannsóknarverkefnið Vestfirðir á miðöldum, síðan er Þjóðfræðistofa á Ströndum og við starfsstöð rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Patreksfirði er starfandi fornleifafræðingur. Ákvörðunin er og í samræmi við fyrirheit ríkisstjórnarinnar í heimsókn til Vestfjarða fyrr í vetur um að efla rannsóknir á svæðinu.

Megintilgangur rannsóknasetra Háskóla Íslands er að styrkja uppbyggingu rannsókna- og fræðastarfs með hliðsjón af aðstæðum og sérstöðu þeirra svæða sem þau tilheyra, sérstöðu sem getur verið landfræðileg, líffræðileg eða sögu- og samfélagsleg. Tilgangur starfseminnar er enn fremur að stuðla að fjölbreyttara atvinnu- og menningarlífi á landsvæðinu, styrkja tengsl háskólans við atvinnu- og þjóðlíf og auka möguleika almennings til menntunar.

Í tengslum við rannsóknasetrin hefur þegar orðið til gróskumikið mennta- og menningarstarf sem er mikilvægt þeim svæðum er þau tilheyra. Fjöldi háskólanema vinnur þar lokaverkefni sín, oftast í svæðistengdum viðfangsefnum. Akademískir starfsmenn þeirra eru ráðnir með sömu hæfniskröfum og aðrir í sambærilegum stöðum við Háskóla Íslands og njóta fullra réttinda sem háskólakennarar.

Hæstv. forseti. „… vísindi og kunnátta eru lykill að allri framför manna og hagsældum“, sagði Jón Sigurðsson í grein sinni „Um alþíng“ árið 1842. Víst er að slíkt hafi að hans mati ekki einvörðungu verið nauðsynlegt á þéttbýlum svæðum. Jón var þannig mikill hvatamaður að bættri menntun í sjávarútvegs- og landbúnaðarfræðum um land allt og samdi fræðslurit um hvort tveggja sem dreift var alls staðar á landinu. Nefna má að hann mun ekki hafa átt lítinn þátt í upphafi sjómannafræðslu á Vestfjörðum upp úr 1850. Þar voru fræðsluþarfir landsbyggðarinnar á hans tímum.

Eins og fram kom í ræðu forseta Alþingis í síðustu viku er það í anda fyrrgreindra orða Jóns Sigurðssonar að það hefur, með leyfi forseta:

„… orðið niðurstaða hér á Alþingi að flytja þessa þingsályktunartillögu sem felur í sér að stofnað verði til prófessorsembættis sem tengt yrði nafni Jóns. Meginviðfangsefni prófessorsins verði að stunda rannsóknir, standa fyrir ráðstefnum og fyrirlestrum og kennslu þannig að líf, starf og arfleifð Jóns Sigurðssonar sé í heiðri haft og að efld verði þekking á sjálfstæðisbaráttu þjóðarinnar.“ Enn fremur:

„Starfsvettvangur prófessorsins verður á heimaslóðum Jóns …“

Það skref sem hér er stigið í dag er mikilvægt fordæmi öðrum aðilum, sjóðum, samtökum, stofnunum eða fyrirtækjum. Þau geta farið að þessu fordæmi Alþingis og eflt atvinnu og mannlíf alls staðar á landinu með því að styrkja eða staðsetja viðamikil störf á sviði rannsókna og fræða þar sem aðstæður eru hentugastar og þar sem störfin styðja við, og styrkja aðra starfsemi á svæðinu. Hér er kominn sá rammi sem nauðsynlegur er til að tryggja gæði starfsins. Staða sem þessi og það sem af henni leiðir er þáttur í að tryggja búsetu á öllu landinu.

Frú forseti. Góðir landsmenn. Eitt einkenna Jóns Sigurðssonar var víðsýni og framsýni. Sú tillaga sem hér liggur fyrir ber þeim eiginleikum hans gott vitni. Nú ekki síður en á tímum hans eru rannsóknir lykill að framförum og hagsæld. Megi prófessorsstaða tengd nafni Jóns Sigurðssonar verða Vestfirðingum og landsmönnum öllum til heilla.