145. löggjafarþing — 155. fundur,  22. sept. 2016.

ákvæði stjórnarskrár og framsal valds.

[10:41]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Ég beini fyrirspurn minni til hæstv. ráðherra sem starfandi utanríkisráðherra eins og hún greindi þinginu frá fyrir tveimur dögum.

Herra forseti. Risið hafa alvarleg stjórnskipuleg álitaefni vegna máls sem hér er til afgreiðslu á næsta lið dagskrár Alþingis. Þar er um að ræða mál sem er í eðli sínu jákvætt en felur hins vegar í sér meira framsal á ríkisvaldi til yfirþjóðlegrar stofnunar en nokkur dæmi eru um, jafnvel þó að inngangan í EES sé tekin með. Þetta mál uppfyllir ekki þau skilyrði sem sett eru til slíkra mála, þ.e. framsalið er ekki vel afmarkað, er ekki á þröngu sviði og er verulega íþyngjandi. Það veitir m.a. yfirþjóðlegri stofnun rétt til að grípa inn í hvers kyns fjármálastarfsemi og við sérstakar aðstæður rétt til þess að stöðva á einni nóttu rekstur slíks fyrirtækis. Þetta er miklu meira framsal en við höfum séð áður. Ég er þeirrar skoðunar og hef fært fyrir því skýr rök að þetta rúmist ekki innan heimilda 2. gr. stjórnarskrárinnar.

Allir þeir sem tóku þátt í umræðu um þetta mál, sem var löng og málefnaleg, voru á sama máli, utan einn. Einn hv. þingmaður Sjálfstæðisflokksins, Brynjar Níelsson, sagði að þetta væri á svargráu svæði sem eins og menn vita er næsti bær við helsvart. Nú er uppi ný staða í málinu. Nú hefur það gerst að einn af helstu stjórnskipunarfræðingum landsins, Björg Thorarensen prófessor, hefur stigið fram og gefið tvöfalda yfirlýsingu um að hún sé sammála viðhorfi okkar og telji að þetta rúmist ekki innan stjórnarskrárinnar.

Spurning mín til hæstv. ráðherra er þessi: Hvaða skaði er skeður þótt við frestum málinu og utanríkismálanefnd, stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd skoði málið þangað til í næstu viku? Er hún mér ekki sammála um að það væri varúðarfull (Forseti hringir.) ráðstöfun af hálfu framkvæmdarvaldsins og ríkisvaldsins (Forseti hringir.) gagnvart stjórnarskránni sem við höfum lagt eið að því að uppfylla?