139. löggjafarþing — 156. fundur,  2. sept. 2011.

staðan í efnahags- og atvinnumálum, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[13:14]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég þakka fyrir þær umræður sem hér hafa farið fram. Ég hafði vænst þess að hér yrðu málefnalegar umræður um stöðu efnahags- og atvinnumála, en ég verð að segja eins og er, virðulegi forseti, að sú von mín brást. Mér finnst alveg með ólíkindum hvernig stjórnarandstöðunni tekst að gera svart að hvítu og hvítt að svörtu. Það er ótrúlegt að bjóða þjóðinni upp á svona málflutning.

Hv. þm. Bjarni Benediktsson sagði orðrétt að það hefði mistekist að snúa vondri stöðu í betri. Hvað er maðurinn að fara? Býr hann ekki á Íslandi og hefur hann ekki séð þann árangur sem hér hefur náðst? (Gripið fram í: Í atvinnumálum?) Hver var staðan í verðbólgunni þegar við tókum við? Voru ekki stýrivextir 18%? (Gripið fram í.) Hverjir eru þeir núna? 4%. Atvinnuleysi var 11%, það er komið niður í 6–7%. Þetta er allt árangur. Og það er vissulega árangur að ná hallanum í ríkisfjármálum úr 215 milljörðum niður í 18 milljarða á næsta ári.

Það er vissulega árangur eftir að allt hrundi hér að við höfum náð að rétta af skuldastöðu heimilanna þó að margir búi enn þá við slæma stöðu. Það hefur komið fram að skuldir heimila hafi verið afskrifaðar um 200 milljarða og skuldir lítilla og meðalstórra fyrirtækja um 200 milljarða. Er það ekki árangur, virðulegi forseti?

Hagvöxtur þarf að verða meiri, en hann er þó 3% og samkvæmt því sem Seðlabankinn hefur upplýst má segja að utan stóriðju gæti atvinnuvegafjárfesting aukist um 40% á næstu tveimur árum, eða um 50 milljarða. Er þetta ekki árangur í atvinnumálum? Er það ekki árangur að við erum núna með í pípunum verkefni sem hafa farið af stað og munu á næstu árum skila 7 þús. störfum og 80–90 milljarða fjárfestingu? Þá eru ótaldar framkvæmdir í orkugeiranum, er þetta enginn árangur? Það er með ólíkindum hvernig stjórnarandstaðan talar og ég verð að segja að niðurrif stjórnarandstöðunnar er raunverulega að verða eitt helsta efnahagsvandamálið. (Gripið fram í.) Það er auðvitað vandamál þegar ekkert kemur frá stjórnarandstöðunni nema niðurrif, (Gripið fram í.) að allt sé að fara í kaldakol í atvinnu- og efnahagsmálum þó að árangurinn sé annar og erlendir aðilar hafi margviðurkennt það. Það er ekki gott til afspurnar þegar við viljum fá erlenda stóriðju og erlenda fjárfestingu inn í landið að tal stjórnarandstöðunnar sé ekkert nema niðurrif, að hér sé allt í kaldakoli og að hér borgi sig ekki að fjárfesta. Það er ekki björgulegt.

Hv. þm. Bjarni Benediktsson sagði að þetta væri óvinsælasta ríkisstjórn sem lengi hefði setið. Ja hérna, hvað segja skoðanakannanir sem hann vitnar í um stjórnarandstöðuna sjálfa? Ekki vill fólk að hún taki við þjóðarbúinu. Það er ekki hægt að sjá að skoðanakannanir mæli það að fólk vilji að stjórnarandstaðan taki við. (Gripið fram í.) Það er mjög eðlilegt vegna þess að hún hefur engar lausnir í þessum málum, (Gripið fram í.) hefur ekkert fram að færa úr þessum ræðustól nema tómt niðurrif. En það verður að halda því til haga sem rétt er, það var ljós í myrkrinu og sanngirni í umræðunni hjá stjórnarandstöðunni, eins og þingmönnum Hreyfingarinnar. Það kom fram vissulega fram hjá hv. þm. Þór Saari að ýmislegt hefði áunnist og að kjör þeirra verst settu hefði verið varin. Hið sama má segja um hv. þm. Guðmund Steingrímsson og meira að segja er hægt að benda á þingmann Sjálfstæðisflokksins, Ragnheiði Ríkharðsdóttur. Það örlaði á sanngirni í tali hennar, sem betur fer.

Hagvöxturinn er nokkuð sem við þurfum að ná upp. Ekki veit ég hvort hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins vita að miðað við OECD-ríkin mældist aðeins í Eistlandi meiri hagvöxtur en á Íslandi á fjórða ársfjórðungi 2010. Margt getur lagst með okkur þannig að hagvöxturinn verði meiri en nú stefnir í. Sóknarfærin eru víða og ríkisstjórnin er staðráðin í að koma hjólum atvinnulífsins miklu betur af stað en nú er. Margt hefur verið gert og margt áunnist en það er líka margt í pípunum sem við erum að vinna með. Þessi ríkisstjórn mun ná árangri, (Forseti hringir.) miklu meiri árangri en náðst hefur, og það væri mikil öfugþróun ef ráðlaus stjórnarandstaða ætti nú að fara að taka við stjórnartaumunum.