145. löggjafarþing — 156. fundur,  23. sept. 2016.

ákvarðanir EES-nefndarinnar um breytingu á IX. viðauka við EES-samninginn.

681. mál
[12:53]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Mál þetta var lengi til meðferðar í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd því að það var ekki nægjanlega vel búið af hálfu ríkisstjórnarinnar. Það var óljóst með hvaða hætti þessar nýju skuldbindingar gætu jafnvel takmarkað svigrúm okkar til þess að grípa til nauðsynlegra aðgerða stæðum við á ný frammi fyrir efnahagsvá eins og þeirri sem varð haustið 2008. Nefndarstarfið fólst í því, í góðri sátt allra flokka, að finna lausn á þessum vanda og tryggja að við værum ekki efnislega að skerða efnahagslegt fullveldi Íslands. En eftir standa síðan athugasemdir sérfræðinga um stjórnskipulegan þátt málsins og svigrúm okkar til að undirgangast skyldur og skuldbindingar af þessum toga að óbreyttri stjórnarskrá.

Ég tel ekki fært annað, þó að efnislega sé málið í lagi, en að greiða atkvæði gegn því í ljósi þeirra viðvarana, í ljósi þess að þetta er eðlisólíkt fyrri atkvæðagreiðslum. Ég tel að þeir sem greiða þessu máli (Forseti hringir.) atkvæði séu að skapa það fordæmi (Forseti hringir.) að 2 gr. stjórnarskrárinnar sé efnislega þýðingarlaus þegar kemur að framsali valds til alþjóðlegra stofnana.