139. löggjafarþing — 157. fundur,  5. sept. 2011.

menntun og ráðning kennara og skólastjórnenda við leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla.

895. mál
[11:39]
Horfa

Frsm. menntmn. (Skúli Helgason) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka öllum ræðumönnum fyrir prýðileg innlegg í umræðunni um þetta litla en þó mikilvæga frumvarp. Ég tek undir með þeim sem hafa talað að hér er fyrst og fremst um sanngirnismál að ræða til að koma til móts við þá kennaranema sem voru komnir vel áleiðis í námi sínu eða höfðu jafnvel lokið námi en vannst ekki tóm til að sækja um leyfisbréf í tíma. Nefndin leggur mjög mikið upp úr því að komið sé fram af fullri sanngirni við þá einstaklinga sem í hlut eiga og þeir séu ekki læstir inni með það að geta ekki nýtt sér það svigrúm sem við erum að opna með þessu frumvarpi á tæknilegum forsendum, sem sé þeim að búið sé að loka fyrir skráningu í háskólanám eins og hv. þm. Auður Lilja Erlingsdóttir kom inn á í sínu máli.

Varðandi þá almennu umræðu sem hér hefur farið fram um mikilvægi kennaramenntunar tek ég heils hugar undir að það sé fullkomlega eðlilegt og mikilvægt reyndar að menntamálanefnd þingsins taki sér stöðu í þessari umræðu. Ég hef fullan hug á því að í menntamálanefnd í tengslum við frekari vinnu þessa frumvarps verði farið yfir þá reynslu sem þegar hefur skapast af því að uppfylla skilyrði laganna frá 2008 um lengri og vonandi betri kennaramenntun í landinu. Við þurfum að fylgjast vel með því að þar þróist hlutir með þeim hætti sem menn vildu sjá þegar löggjöfin var sett á sínum tíma.

Að mínu mati er ekki hægt að ofmeta mikilvægi þessa starfs. Ég tel reyndar að kennarastarfið sé eitthvert mikilvægasta starfið innan almannaþjónustunnar, hvort sem við lítum til leikskólakennara, grunnskólakennara, framhaldsskólakennara eða háskólakennara, og ekki síst á fyrsta skólastiginu. Þar er langur vegur frá því að leikskólinn sé eingöngu geymslustofnun fyrir börn undir skólaskyldualdri. Við þekkjum það að börn á þessum aldri eru reiðubúin til þess að læra. Ég er þeirrar skoðunar að þau geti lært mun meira en þeim er boðið upp á í leikskólunum og það sé óeðlileg tregða til þess að hefja t.d. lestrarkennslu í leikskólunum á þeim forsendum að þar sé í einhverjum skilningi verið að fara inn á svið grunnskólans. Þetta er samtal sem þarf að eiga sér stað á milli stjórnvalda, kennarastéttarinnar og síðan foreldra og almennings í landinu. Ég er mjög fylgjandi því að við skoðum breytingar sem þarf að gera til að þetta kerfi, menntakerfið, verði heildstætt frá leikskóla og upp úr.

Hins vegar er mikilvægt að menn átti sig á því að allar breytingar á starfskjörum einstakra stétta — því að hér hefur umræða verið um kjaramál kennara — verða að grundvallast á góðri samvinnu og samtali á milli stjórnvalda og viðkomandi fagstétta sem byggist á gagnkvæmum skilningi þess að allir séu tilbúnir til að leggja sitt af mörkum til að bæta þetta fyrirkomulag. Grundvallarbreytingar á þessu kerfi verða ekki gerðar með valdboði að ofan, allar alvöruúrbætur sem eiga að skila sér verða að fara fram í samtali sem á sér stað yfir tiltekinn tíma þar sem menn leggja sig fram um að skapa gagnkvæmt traust um að engin annarleg sjónarmið séu að baki.

Ég tek undir það að við þurfum að skoða þætti eins og brottfall í menntakerfi okkar. Það er miklu meira en ásættanlegt getur talist og við erum Evrópumeistarar þar, alræmd fyrir allt of mikið brottfall í menntakerfi okkar. Það er verkefni sem við þurfum að takast sérstaklega á við. Ég er þeirrar skoðunar að þetta kalli á að við förum í ríkari mæli út úr því að líta á nemendur sem hóp, við verðum að skoða hvern einstakling fyrir sig og meta hvað er að gerast í starfi viðkomandi einstaklinga í skólakerfinu og leiðarljósið eigi að vera það að við sættum okkur ekki við að neinn þurfi frá að hverfa úr því kerfi öðruvísi en koma út úr því með fullnægjandi menntun. Afleiðingarnar af því að sætta sig við brottfallið eru svo langvarandi og svo alvarlegar fyrir samfélagið að það er ekki hægt að ofmeta það. Það skilar sér bæði inn í þroska einstaklingsins, inn í lífsgæðin og síðan inn í budduna bæði hjá viðkomandi og í ríkiskassanum.

Ég tek fagnandi þeim heitstrengingum sem hafa komið frá fulltrúum í menntamálanefnd um að við látum okkur þessi málefni varða á komandi mánuðum, þ.e. inntak og gæði kennaramenntunar í landinu og hvað það þýðir fyrir menntapólitík okkar í heild sinni. Ég tel að við eigum í vaxandi mæli að skoða samhengið á milli menntastefnunnar og atvinnustefnunnar, það hafi verið vanrækt hér. Við höfum allt of litlar upplýsingar fyrirliggjandi um hvaða þarfir eru að skapast í atvinnulífinu til að við getum þjónustað t.d. þær vaxtargreinar sem eru að komast í gang, eins og hugverkaiðnaðinn sem dæmi. Við eigum mjög langt í land með að standa jafnfætis öðrum Evrópuþjóðum varðandi greiningar á því hvaða færni er óskað eftir í atvinnulífinu. Það er sérstakt verkefni sem við þurfum að einhenda okkur í að skoða betur. Í samhenginu er sýnin sú að við stöndum uppi með gott samhengi á milli menntastefnu og atvinnustefnu sem ég tel að sé reyndar eitt af brýnustu verkefnum okkar í vetur.