145. löggjafarþing — 158. fundur,  27. sept. 2016.

Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins.

873. mál
[14:05]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Það veldur vonbrigðum að ekki skuli draga til tíðinda úr ranni forseta þar sem hann fékk töluvert mikla hvatningu hér fyrr í dag, að ég segi ekki brýningu, í þá veru að standa með Alþingi þegar við horfum upp á það að ríkisstjórnin er í raun komin algjörlega að fótum fram. Þar er engin stjórn og engin stýring og engin forgangsröðun í gangi, menn virðast hreinlega ekki tala saman innan búðar í ríkisstjórninni sjálfri. Nú er svo komið að hver einasti fréttatími er orðinn undirlagður af því hver talar við hvern og hver stendur með hverjum o.s.frv. Við erum í þeirri stöðu að geta haldið þinginu utan við þessi átök, við getum sinnt þinginu af virðingu og sóma, þeim sóma sem þingið verðskuldar. Ég vil árétta við forseta að hann hætti að spyrja framkvæmdarvaldið hvað það vill þegar framkvæmdarvaldið hefur engan vilja lengur vegna þeirrar kreppu (Forseti hringir.) sem það er í, og búi til farsæla dagskrá með þingflokksformönnum og ljúki hér þingi með sóma á fimmtudaginn.