145. löggjafarþing — 158. fundur,  27. sept. 2016.

Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins.

873. mál
[14:07]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P) (um fundarstjórn):

Forseti. Því miður virðist það vera svo að ríkisstjórnin sé í einhverjum ABBA-leik samkvæmt hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur. Ég skynja að þessi ríkisstjórn er komin að fótum fram. Hér erum við að tala um eitt stærsta mál sem borið hefur inn á Alþingi sem við eigum að afgreiða hér á nokkrum dögum og það er einn þingmaður stjórnarliða í salnum, einn stjórnarþingmaður, frá Framsóknarflokknum. Hvar er hæstv. fjármálaráðherra? Ætlar hann ekki að taka þátt í þessum umræðum? Ég beindi t.d. til hans mörgum spurningum í ræðu minni áðan en hann sat og fjasaði við einhverja í hliðarsal og var ekkert að hlusta. Þetta er virðing framkvæmdarvaldsins fyrir Alþingi, forseti. Það er kominn tími til að forseti sýni að hann sé í raun og veru forseti alls þingsins en ekki gólftuska fyrir framkvæmdarvaldið.