145. löggjafarþing — 158. fundur,  27. sept. 2016.

Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins.

873. mál
[15:48]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Eins og ég sagði áðan held ég að málið sé ekki til þess fallið að ná langtímasátt á vinnumarkaði eins og það lítur út núna. Alls konar fólk hefur haft samband. Ég fór á fjármálaráðstefnu sveitarfélaga. Þar átti ég samtal við nokkuð marga sem voru alveg æfir yfir þessu og fannst freklega fram hjá sér gengið að gera þetta á þennan hátt. Auðvitað hefur maður áhyggjur. Ég skil alveg að fólk sem er í víglínunni og hefur verið að reyna að semja óttist að ef þetta gerist ekki núna sé þetta fyrir bý.

Ég veit ekki hvert besta þingferlið er ef ekki tekst að ganga frá þessu núna. Ég tel að mánuður til eða frá skipti ekki máli. Í svona stóru máli finnst mér alveg galið að halda því fram að ef þessi ríkisstjórn klárar það ekki þá gerist það alls ekki, að ætla öllum öðrum að vera á móti því þannig að það gerist ekki. Ég held að það sé raunveruleikinn hér innan þings eins og ég sagði áðan að stærsti hluti fólks er sammála því að við eigum að lagfæra lífeyrissjóðakerfið. Ég hefði viljað lagfæra það upp á við og ég hefði líka viljað sjá þær sviðsmyndir sem ekki eru sýndar, þegar maður heyrir ítrekað að að einhverju leyti virðist hafa verið samið án umboðs, ég veit ekki.

Ef þetta hefur verið í ferli mjög lengi, gildir umboðið endalaust? Var það gefið af öllum eða þarf ekki alla, þarf bara meiri hluta, ríkjandi meiri hluta? Það má vel vera. Ég held alla vega að við getum gert þetta betur og við eigum að taka allt þetta fólk að borðinu og gefa okkur góðan tíma til að ræða við það.