145. löggjafarþing — 158. fundur,  27. sept. 2016.

Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins.

873. mál
[16:53]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég verð að taka undir það sem hv. 3. þm. Reykv. s. nefndi. Ég sé enga ástæðu til að vera að halda áfram þessum þingfundi fyrr en þetta er komið á hreint. Það er ákveðið grundvallaratriði að við vitum hvað er fram undan. Við þurfum að forgangsraða tíma okkar. Við neyðumst til að forgangsraða honum hér inni í þingsal núna þegar við gætum verið að forgangsraða honum í þágu annarra þingmála sem við vissum hvort til stæði að afgreiða eða ekki. Það skiptir máli. Ég vil þó þakka sitjandi virðulegum forseta fyrir að svara spurningunum. Það virðist ekki sjálfgefið hérna af einhverjum ástæðum. Ég lýsi ánægju minni með sitjandi forseta.

Þá langar mig líka að leggja til við sitjandi forseta og þá sem sitja hér seinna í kvöld að halda þingfundi upplýstum um gang mála vegna þess að engar fréttir eru fréttir á þessum tímapunkti, eins og staðan er orðin núna. Mér finnst mikilvægt að við höldum þingsal upplýstum.