145. löggjafarþing — 158. fundur,  27. sept. 2016.

Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins.

873. mál
[14:20]
Horfa

Ásta Guðrún Helgadóttir (P) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég verð bara að koma hingað upp og lýsa yfir vonbrigðum mínum varðandi það hvernig þingstörfum hefur verið háttað undanfarnar vikur og mánuði, ef svo má segja. Stjórnarandstaðan hefur lagt sig í líma við að vera sanngjörn, við höfum gert allt sem við getum til að mæta ríkisstjórninni og það eina sem við erum að biðja um er einhver málalisti til að klára. Er það vilji virðulegs forseta að ríkisstjórnin fái ekki að klára nein mál? Er það vilji forseta að kannski verði starfsáætlun ekki framlengd heldur að þingið muni bara slútta á fimmtudaginn með fullt af málum í lausu lofti? Ég sé ekki fram á að hægt verði að klára nokkurn skapaðan hlut ef við reynum ekki að mætast á miðri leið. Það er bara staðreynd og við þurfum að horfast í augu við að það er þingræði hér á landi sem þýðir að það þarf að virða þingsköp. Ég held að allir séu tilbúnir að hanga hérna til 28. október sé þess þörf.