145. löggjafarþing — 159. fundur,  28. sept. 2016.

kostnaður við ívilnanir til stóriðju.

[11:13]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Það er fagnaðarefni að ræða jafn stórt mál og hér er sett á dagskrá. Ég þakka fyrir tækifærið til þess en á sama tíma er erfitt að komast yfir allt sviðið. Það er margt sett á dagskrá undir þessari sérstöku umræðu um ívilnun til stóriðju.

Hv. málshefjandi segir að uppbygging á mengandi stóriðju hafi verið einhvers konar kjarni atvinnustefnu okkar Íslendinga á undanförnum árum. Ég held að það sé reyndar ekki alveg rétt, hins vegar varð mikil breyting á lífskjörum á Íslandi þegar við hurfum frá því að vera einfaldlega fiskimannasamfélag, þjóð sem byggði lífsafkomu sína á því að sækja verðmæti í hafið, og fórum að virkja og það fóru af stað álver eins og var byggt í Straumsvík. Við fengum með því fleiri stoðir undir hagkerfið.

Ég held að það sé engum blöðum um það að fletta að lífskjörin á Íslandi hafa batnað mjög eftir því sem við höfum nýtt sjálfbæra orku í landinu. Við erum sú þjóð í heiminum sem t.d. fyrir heimilin nýtir hæst hlutfall sjálfbærrar orku til orkuöflunar, bæði fyrir rafmagn og hita. Það er mikilvægt að hafa í huga að uppbygging iðnaðarfyrirtækja á Íslandi hefur hjálpað til við að byggja upp raforkukerfið sem allur smáiðnaður, landbúnaður, byggðir um allt land, njóta góðs af. Það eru einungis þrjú til fjögur fyrirtæki á Íslandi sem kaupa 3/4 af öllu aflinu í raforkukerfinu — 3/4 af öllu aflinu — þannig að það er út af fyrir sig rétt að sú ákvörðun að gera samninga við jafn stór fyrirtæki og orkufrek hefur haft verulega mikil áhrif. Ég tel ólíkt málshefjanda að það hafi verið mjög til góðs fyrir lífskjörin í landinu, fyrir efnahagslífið okkar, fyrir hagkerfið. Við höfum með því fengið fleiri stoðir og óbeinu áhrifin verið gríðarlega jákvæð. Án þeirrar uppbyggingar hefðum við ekki getað séð byggðir blómstra, iðnað, raforku dreifast um landið með þeim hætti sem hefur verið.

Ég vil taka undir með hv. þingmanni þegar kemur að því að horfa til nýrrar atvinnuuppbyggingar, skapandi greinar. Hún nefndi sérstaklega ferðaþjónustuna, en það er allt hitt líka sem við þurfum að fara að beina sjónum okkar að í auknum mæli, greinar sem hafa ekki þennan náttúrulega takmarkandi þátt sem orkan er til vaxtar heldur geta vaxið á erlendri grundu, t.d. með tækni. Við sjáum mörg fyrirtæki hasla sér völl frá Íslandi á því sviðinu. Ég nefni sem dæmi hugbúnaðarfyrirtækin sem þurfa m.a. öflugt stöðugt efnahagsumhverfi. Að því leytinu til er ég algjörlega sammála hv. þingmanni, leiðin fram á við er ekki að stórfjölga stóriðjuverum á Íslandi. Ég sé ekki fyrir mér t.d. að álverum muni fjölga á Íslandi í framtíðinni. Ég sé það ekki fyrir mér. Ég sé það hins vegar fyrir mér að smærri iðnaðarfyrirtæki geti haslað sér hér völl og við þannig fengið meiri fjölbreytni í viðskiptahóp raforkufyrirtækjanna.

Ég leyfi mér að benda hér á vegna þess að þeirri spurningu er velt upp hvort allt þetta hafi skilað einhverju, hvort við höfum tekið á okkur meiri skuldbindingar en hægt er að réttlæta með hliðsjón af áhættunni, að þá er til þess að líta að eigið fé Landsvirkjunar er rétt rúmlega 40% um þessar mundir, eigið fé er yfir 200 milljarðar, eignir umfram skuldir yfir 200 milljarðar. Eftir einungis tvö til þrjú ár mun Landsvirkjun fara að greiða 15, 20, jafnvel 25 milljarða á ári til ríkisins í arð — 15–25 milljarða á hverju ári. Landsvirkjun hefur á undanförnum árum staðið í gríðarlega miklum framkvæmdum en á sama tíma greitt upp 80 milljarða af skuldum. Fyrirtækið er feikilega öflugt og vegna þeirrar framtíðar sem við okkur blasir hef ég talað fyrir því að við sköpum stöðugleikasjóð í landinu og beinum arðinum af nýtingu orkuauðlindanna inn í stöðugleikasjóðinn og höfum hann sem eins konar varúðarsjóð fyrir okkur til þess að jafna út sveiflur sem við getum þurft að búa við í efnahagsmálum. Ég er ekki þeirrar skoðunar að við eigum að losa um eignarhald Landsvirkjunar til einkaaðila m.a. með hliðsjón af þessu, þótt ég hafi fyrr á árum viðrað þá hugmynd að við gætum átt eignarhaldið í sameign með lífeyrissjóðum, (Forseti hringir.) en sú hugmynd hefur ekki fengið góðan hljómgrunn. Ég tel að við eigum ekki að vera að rugga bátnum neitt varðandi eignarhaldið á því fyrirtæki.