145. löggjafarþing — 159. fundur,  28. sept. 2016.

kostnaður við ívilnanir til stóriðju.

[11:33]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Hér er rætt í sérstakri umræðu um ívilnunarsamninga og hnýtt við það: til stóriðju. Ég vil segja fyrir mitt leyti að ívilnunarsamningar og frumvörp og lög sem við höfum sett um þá eru nauðsynleg. Aðrar þjóðir eru með slíka löggjöf. Það er í raun og veru barátta um fyrirtækin. En hvað er stóriðja? Er stóriðja 600 manna vinnustaður? Já, ef til vill. Er kísilver á Bakka á Húsavík með 93 starfsmenn eins og hinir nákvæmu Þjóðverjar sögðu að mundu vinna þar stóriðja? Nei, varla. Það er eins og bara þokkalegt frystihús.

Höfum í huga að við erum í alþjóðlegum samningum, alþjóðlegu rekstrarumhverfi, þar sem við þurfum að taka þátt í samkeppni. Þess vegna eru ívilnunarsamningar nauðsynlegir. En við þurfum að sjálfsögðu að haga málum okkar af skynsemi. Ég tek undir það og hef áður sagt í ræðustól Alþingis: Það verða ekki byggð fleiri álver á Íslandi. Við erum komin með nóg. Við eigum ekki að hafa öll eggin í sömu körfunni.

Það ber líka að fagna því og minnast á að Landsvirkjun, þetta glæsilega stóra og mikla fyrirtæki okkar sem við getum öll verið stolt af, er með eigið fé upp á 40% og 200 milljarða króna. Þar að auki fáum við Íslendingar á hverjum einasta degi arð af þessu fyrirtæki í hinum lágu orkugjöldum sem eru á Íslandi og þekkjast ekki í nágrannalöndum okkar. Höfum það í huga. En það er ábyggilega mikill munur á raforkusamningi sem var gerður við Straumsvíkurálverið rétt eftir að síldin hvarf upp úr 1960 eða milli 1960 og 1970 og raforkusamningum sem gerðir eru í dag. Staðan er allt önnur. Mitt mat er að Landsvirkjun gæti hagsmuna okkar við að reyna að fá sem hæst verð fyrir orkuna í samningum, (Forseti hringir.) hvort sem um er að ræða lítil eða meðalstór fyrirtæki sem banka upp á hjá okkur.

Virðulegi forseti. Allir aðrir njóta þess. Stóriðjan, ferðaþjónustan eða sjávarútvegurinn eða aðrir aðilar. Allir njóta þess sem þarna hefur komið fram.