131. löggjafarþing — 16. fundur,  2. nóv. 2004.

Efling starfsnáms.

27. mál
[16:29]

Flm. (Björgvin G. Sigurðsson) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég flyt hérna öðru sinni þingsályktunartillögu okkar í Samfylkingunni um eflingu starfsnáms og styttri námsbrauta, nú í töluvert breyttri mynd frá því í fyrra eftir að málið hefur hlotið umræður í menntamálanefnd þar sem við þingmenn Samfylkingar lögðum ríka áherslu á að hér væri um þverpólitískt mál að ræða sem væri mjög brýnt að afgreiða frá Alþingi en svæfa ekki þyrnirósarsvefni inni í nefnd einn ganginn enn eins og gerist allt of oft með mörg góð mál á hinu háa Alþingi. Þá taldi ég mig hafa nokkurt vilyrði fyrir því frá forustumönnum stjórnarflokkanna í menntamálanefnd að málið, fram komið öðru sinni, yrði litið mjög jákvæðum augum í nefndinni og ef allt færi eins og best á horfði yrði það afgreitt út úr henni og til 2. umr. Við fengum fjölda ágætra umsagna um málið sem að sjálfsögðu voru notaðar til að efla það og styrkja til hins ýtrasta.

Þetta er mjög mikilvægt mál, það er mjög brýnt að efla iðnnám í landinu. Að mörgu leyti er iðnnámið öflugt og stendur nokkuð styrkum fótum í iðnskólunum sjálfum en innan fjölbrautaskólanna hefur hallað verulega undan fæti bæði vegna fjárskorts og þess hvernig reiknilíkanið skammtar fé til framhaldsskólanna sem hafa lagt flestar verknámsgreinar af á kennsluskrám. Verknámið er því ekki nema að litlu leyti kennt í svokölluðum fjölbrautaskólunum og hefur færst að verulegu leyti í stóru iðnskólana og verknámsskólana á höfuðborgarsvæðinu með nokkrum undantekningum, t.d. mjög öflugum verknámsskólum á Akureyri og í Fjarðabyggð.

Mjög brýnt er að skjóta miklu styrkari stoðum undir verknámið og iðnnámið en hefur verið gert og því leggjum við til með þessari tillögu að Alþingi álykti að fela starfshópi skipuðum fulltrúum þingflokkanna, Samiðnar, Samtaka iðnaðarins, Félags framhaldsskólanema, Félags framhaldsskólakennara, Iðnnemasambandsins, Alþýðusambands Íslands, Samtaka atvinnulífsins, Verslunarráðs Íslands og fulltrúa skólastjóra verknámsskólanna, að vinna tillögur um átak til að efla starfsnám og styttri námsbrautir og stofnun styttri námsbrauta, með það að markmiði að efla starfsnámið verulega, draga úr brottfalli, eyða úreltri aðgreiningu milli bóknáms og verknáms, endurskoða samsetningu náms í grunnskólum með sérstöku tilliti til verknáms.

Það er einn af mikilvægustu þáttunum í þessu. Um helgina var ég á þingi Iðnnemasambandsins og ávarpaði þingið á laugardaginn ásamt hæstv. menntamálaráðherra og Inga Boga Bogasyni frá Samtökum iðnaðarins. Þar spunnust mjög uppbyggilegar og skemmtilegar umræður um stöðu iðnnáms og það var sem ferskur andblær fyrir mig að mæta þarna á iðnnemaþingið og ræða málið beint og milliliðalaust við þá sem í eldlínunni standa en þetta var mjög hressilegt og kraftmikið þing þar sem tekið var á mörgum málum. Það sem upp úr stóð, eins og ég nefndi áðan, var að mjög eftirsóttar verknámsgreinar eins og t.d. hárgreiðsla og allt sem tengist háriðnum hefur færst nánast algjörlega á höfuðborgarsvæðið og er t.d. ekki kennt á Akureyri, en er reyndar kennt fyrir austan, í Neskaupstað. Þetta er dæmi um hvernig allt er að færast hingað en þeim greinum sem nemendur úti á landi geta valið fækkar.

Annað í sambandi við kynninguna á iðnnáminu sem mörgum iðnnemum liggur þungt á hjarta er hið nöturlega viðhorf sem allt of margir hafa til verknámsins. Ekki er neinu einu þar um að kenna heldur er þetta andrúmsloft og viðhorf í garð verknámsins sem skapaðist fyrir árum og áratugum síðan þegar litið var svo á að verknámið væri einhvern veginn annars flokks, væri ekki jafnmerkilegt og bóknámið. Þarna væri um að ræða einhvers konar tossabekk fyrir þá sem einhverra hluta vegna væri ekki fært að ganga bóknámsveginn.

Um þetta spunnust mjög fjörugar umræður manna í millum á iðnnemaþinginu og við fórum að ræða um leiðir til að breyta viðhorfinu og sérstaklega hjá nemendunum sjálfum. Að mínu mati er langbesta leiðin til að gera það í gegnum grunnskólann, að leggja af þessa hefðbundnu kennslu á smíðum og saumaskap sem viðgengist hefur áratugum saman í grunnskólanum og taka þess í stað upp nokkurra vikna námskeið í hverri grein fyrir sig, mánaðarnámskeið í málmiðnum, mánuð í þessu, mánuð í hinu, og kynna þannig fyrir börnum og unglingum mismunandi og ólíkar verknámsgreinar. Þannig fái þau beint í æð hvað þetta er skemmtilegt nám og geti svo tekið afstöðu til þess sjálf hvað og hvort þau vilji nema síðar.

Hitt sem mér fannst standa upp úr umræðum á þessu iðnnemaþingi, og er eitt af mikilvægustu atriðunum, er að þeim nemendum sem fara í starfsnámið séu ljósir kostirnir sem þeir hafa til að byggja ofan á nám sitt síðar. Þar komum við aftur inn á hitt meginatriðið í þessari þingsályktunartillögu sem er að fjölga styttri námsbrautum sem er alltaf galopinn skóli, galopnar dyr og auðvelt að byggja ofan á síðar, hvenær sem hentar námsmanninum, hvenær sem hann vill gera hlé á þátttöku sinni á atvinnumarkaðnum og fara aftur í skóla. Á þennan hátt er hægt að byggja ofan á námsbraut sem hefur verið tekin og bæta nýju réttindanámi við og það sé þannig mjög greið og augljós leið fyrir iðnaðarmenn og verknámsnema að fara aftur inn í skóla, inn í tækniháskólann eða aðra skóla.

Þá kemur sérstaklega upp í hugann sú aðgerð Háskóla Íslands í haust að hætta að nota undanþágu sem skólinn hefur haft til að taka inn stúdenta af starfsnámsbrautum. Þetta er að mínu mati mjög ruddaleg og neikvæð aðgerð af hálfu Háskóla Íslands. Ég veit vel að Háskóli Íslands var að beita neyðarúrræðum vegna fjárskorts frá hinu opinbera með því að skera niður það sem hægt var án þess að ganga meira á námið en hann gerði. Að mínu mati er þetta mjög neikvæð staða, sérstaklega þar sem starfsnámsstúdentum var annaðhvort ekki gerð grein fyrir því að þeir gætu ekki fengið inngöngu í háskóla síðar eða það að undanþágum hefur verið beitt í svo mörg ár að komin var hefð á hana og nemendurnir hafa gengið út frá því sem vísu að þeir gætu komist inn í háskólann og lært þar eitthvað meira. Enda eru engin rök fyrir því að stúdentspróf af starfsnámsbraut sé ekki jafngilt stúdentsprófi af bóknámsbraut. Það má ræða út frá mörgum sjónarhornum sérstaklega þar sem fleiri einingar eru á bak við stúdentspróf af verknámsbraut en af öðrum brautum. En þetta á að sjálfsögðu að vera á hreinu, það á ekki að nota þetta til að fæla fólk frá frekari menntun því það er þá, eins og ég segi, mjög ruddaleg og neikvæð aðgerð og vonandi verður háskólunum gert kleift eða gert skylt að taka við þessum stúdentum eins og öðrum á næsta ári. Það þarf að breyta þessum reglum og skýra þær.

En aftur að tillögunni sem við þingmenn Samfylkingarinnar flytjum öðru sinni í talsvert breyttri mynd. Þegar ég flutti tillöguna í fyrra rakti ég sögulegan bakgrunn verknámsins á Íslandi. Er það skemmtileg saga sem er ágætlega rakin í bók Helga Guðmundssonar um sögu Iðnnemasambandsins og iðnnemahreyfingarinnar í 100 ár, sem kom út 1998. Þar er sérstaklega skemmtilega sagt frá fyrsta iðnnemanum, sem var Jón Jónsson Matthíasson, sonur Jóns Matthíassonar prests á Hólum árið 1530. Verknámið á sér því langa sögu og stendur traustum fótum á Íslandi. Upp úr þar síðustu aldamótum tók iðnnámið stór stökk og hefur þróast hröðum skrefum yfir í það sem við þekkjum í dag. Meðal annars með tilkomu fjölbrautaskólanna, stóra fjölbrautaskólans í Breiðholti 1975, Fjölbrautaskólans á Selfossi 1981 og fleiri öflugra fjölbrautaskóla sem voru stofnaðir sérstaklega til að bjóða upp á bæði bóknám og verknám, öflugt og fjölbreytt nám af báðum gerðum. Þá voru margir mjög bjartsýnir á að vegur iðnnámsins væri nokkuð tryggur og greiður og góður.

En fljótlega fór að halla undan fæti af því að reiknilíkanið er þannig byggt upp að það er kostnaðarsamt að halda verknáminu úti og því er freistandi fyrir skólana, sem eru að sjálfsögðu í eilífum barningi í rekstrinum, að leggja af fámennar verknámsgreinar einfaldlega til að spara peninga þar sem það er svo miklu, miklu ódýrara að mennta stúdenta á bóknámsbrautum. Þróunin hefur því verið mjög neikvæð og núna blasir við skortur á iðnmenntuðu fólki í einstökum greinum eins og kom fram í viðtali við Baldur Gíslason, skólastjóra Iðnskólans í Reykjavík — en sá merkilegi skóli á nú 100 ára afmæli og er ástæða til að óska honum til hamingju með það — að t.d. er fyrirsjáanlegur skortur á járniðnaðarmönnum svo hundruðum skiptir á næstu árum. Þetta er því um margt neikvæð staða og það er mjög margt annað sem þarf að skoða til að efla iðnnámið frekar og breyta viðhorfunum í garð þess og hvetja verulega til aukinnar þátttöku í því.

Brottfall úr íslenskum framhaldsskólum er verulega hátt og við Íslendingar eigum heimsmet í brottfalli úr framhaldsskólum. Þar er brottfallið sérstaklega hátt úr verknáminu. Þessu þarf að breyta og þar er öflug námsráðgjöf strax í grunnskóla algjört lykilatriði. Þar erum við miklir eftirbátar Norðurlandaþjóðanna sem hafa náð framúrskarandi tökum á að minnka brottfallið niður í lítið sem ekki neitt, sérstaklega í Svíþjóð. Aðgerðir gegn brottfalli er einn af mörgum þáttunum sem spila inn í mikilvægi þess að efla starfsnámið og stytta námsbrautirnar. Fjölgun styttri námsbrauta skiptir að mínu mati verulegu máli til að efla framhaldsskólastigið. Mikilvæg viðbót við framhaldsskólamenntun er fjölbreytt framboð styttri námsbrauta í hinum ýmsu starfsgreinum í þjónustu og öðrum störfum sem ekki heyra undir neinar faggreinar en eru miðaðar að því að leið fólks til að bæta við sig nýjum greinum sé alltaf greið. Og, eins og ég gat um áðan, að fólk geti alltaf með greiðum og augljósum hætti bætt ofan á nám sitt.

Við flutningsmenn þessarar tillögu erum þess fullvissir að framboð á slíkum styttri námsbrautum mundi valda miklum breytingum fyrir marga unga einstaklinga sem eru óráðnir um hvert þeir eigi að fara í menntun, hafa ekki áhuga á bóknámi, treysta sér ekki til að skuldbinda sig í langt iðnnám, enda sýnir hið mikla brottfall að mörgum hentar það illa, en styttri námsbraut gæti verið fyrsti áfanginn á menntagöngu mjög margra.

Ég spurði hæstv. menntamálaráðherra í fyrra um brottfall á milli ára og það kom ágætlega greinargott svar. Reyndar var deilt um hvaða aðferðir væru notaðar til að skilgreina brottfall en svarið sýndi að brottfallið úr verknáminu er yfir 20%, jafnvel á þriðja tug prósenta. Það er reyndar svolítið erfitt að henda alveg reiður á því af því að margir eru samningsbundnir og hverfa frá skráðu námi til að fara á samning o.s.frv. En þó liggur fyrir að brottfallið úr verknáminu er allt of mikið og tel ég að slíkar styttri námsbrautir gætu skipt þar mjög miklu máli.

Annað sem er algjört lykilatriði í þessu öllu er virðingin fyrir verknáminu, viðhorfin í garð iðnnámsins eins og það leggur sig. Þau hafa verið neikvæð og okkur til mikils skaða. Þau hafa orðið til þess að allt of margir fara í bóknám sem þeir hætta eftir kannski eitt, tvö ár, enda er brottfallið úr framhaldsskólunum langmest á fyrsta og öðru ári. Það má segja að það sé alveg gríðarlegt og þróunin, eins og staðan er núna, er þannig að það eru yfir 40% af vinnuaflinu á Íslandi með styttri skólagöngu en framhaldsskólapróf, þ.e. grunnskólapróf en ekki framhaldsskólamenntun, og þróun síðustu ára sýnir að þetta er ekkert að breytast. Ætla mætti að þetta væri að breytast, því æ fleiri úr hverjum árgangi útskrifast úr framhaldsskóla o.s.frv., en samkvæmt tölum frá fullorðinsfræðslu atvinnulífsins er þetta ekkert að breytast og þróunin stendur í stað. Á sumum landsvæðum eins og sums staðar á Norðurlandi vestra er þetta hlutfall miklu, miklu hærra, samsetningin er ekki nógu góð. En ég kem kannski betur að því síðar, ég hef einungis náð að tæpa á örfáum atriðum í þessari þingsályktunartillögu núna.